142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[19:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í seinni ræðu minni um lækkun veiðigjalda koma inn á áhyggjur sjómanna af veiðigjöldum yfir höfuð. Það hefur mikið verið talað um það í þeirra röðum að veiðigjöldin komi í veg fyrir eðlilegar kjarabætur og hækkun launa og geti dregið úr því að þeir nái kjarasamningum þar sem höfðað sé til þess að útgerðirnar þurfi að greiða það há veiðigjöld að þær eigi erfiðara með að greiða sjómönnum sínum laun og gera við þá kjarasamninga.

Á þeim forsendum hafa samtök sjómanna lýst því yfir að þau séu á móti auðlindagjöldum, ekki samt öll samtök sjómanna en það hefur komið fram í umsögnum þeirra. Mér finnst sorglegt að því sé stillt þannig upp að sjómenn horfi á þetta með þeim gleraugum að það komi í veg fyrir eðlilegar launahækkanir og gerð kjarasamninga en sjái það ekki í stóra samhenginu þar sem um er að ræða auðlindarentu til þjóðarinnar sem nýtist öllum þjóðfélagsþegnum, þar á meðal sjómannastéttinni. En svona hefur því verið stillt upp gagnvart sjómönnum og eins og ég kom að í fyrri ræðu minni hefur sjómönnum verið beitt fyrir útgerðina í þeim tilgangi að berjast gegn breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og veiðigjöldum og ég tel það vera mjög af hinu vonda að sjómenn séu hafðir í forsvari á röngum forsendum í þeirri baráttu.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í grein Indriða H. Þorlákssonar sem hann skrifar þar sem hann fjallar um sjómannslaun í tengslum við veiðigjöldin og segir:

„Laun sjómanna eru í kjarasamningum yfirleitt ákveðin á grundvelli hlutaskiptareglu, þ.e. sjómenn fá í laun ákveðið hlutfall af söluverðmæti aflans. Veiðigjöldin hafa engin áhrif á það verð sem fæst fyrir afla á markaði og þar af leiðandi ekki á laun sjómanna. Laun sjómanna hafa hækkað með lægra gengi og hækkandi fiskverði. Því hefur verið haldið fram að veiðigjöldin hvetji útgerðir til að reyna að lækka laun sjómanna. Óskir þess efnis voru uppi löngu fyrir tilkomu núverandi veiðigjalda. Ólíklegt er að þau ýti undir þær m.a. af því að ávinningur útgerða af lækkun launahlutfallsins er minni en áður því launakostnaður kemur til frádráttar áður en veiðigjöldin eru reiknuð. Lækkun launanna hækkar veiðigjöldin sem dregur úr ávinningi útgerðarinnar af lækkuninni.“

Þetta er ekki flóknara en svo að í raun og veru er það sjómönnum í hag eða útgerðinni, hún greiðir minna í veiðigjöld ef hún hækkar laun sjómanna sinna sem ætti að vera hvati til að hækka laun sjómanna ef þeir vilja síður að stærri hluti rentunnar renni í ríkissjóð.

Svona áróður síast inn og undir, ég segi fölskum forsendum er honum haldið á lofti alveg eins og áróðrinum um að veiðigjöld séu landsbyggðarskattur, verið sé að draga fé úr byggðum landsins og færa fjármuni yfir á höfuðborgarsvæðið. Ég tel þetta vera hráskinnaleik sem menn eiga ekki að stunda í þeim tilgangi að berjast gegn veiðigjöldum og breyttu fiskveiðistjórnarkerfi.

Það hefur líka verið sagt að margar útgerðir séu svo illa staddar út af tilkomu veiðigjaldanna að þær muni ekki geta risið undir þeim og fari á hausinn. Ég hef reynt á fundum atvinnuveganefndar að kalla fram hjá endurskoðunarfyrirtækjum rökstuðning fyrir því og fá fram hvort veruleikinn sé sá að útgerðir séu komnar í þá stöðu, eins stutt og það er frá því að veiðigjöldin komu til, að það valdi því að fyrirtækin stefni í gjaldþrot. Ég fékk ekki neinn rökstuðning fyrir því yfir höfuð. Það var einungis nefnt sem dæmi umfjöllun, sem reyndar allir þekkja úr blöðunum, um stórt útgerðarfélag sem hefði hótað að segja upp 40 sjómönnum vegna tilkomu veiðigjalda, en það útgerðarfélag er reyndar skuldlaust og fannst mér það ekki besta dæmið um að veiðigjöldin væru að setja sjávarútvegsfyrirtæki á hliðina, það hlyti að vera eitthvað annað sem ræki menn til þess að segja upp tugum sjómanna, 40 sjómönnum, þó að yfirskinið væri að veiðigjöldin væru að reka menn til þess.

Það hefur líka komið fram að mörg sjávarútvegsfyrirtæki voru mjög illa stödd fyrir hrun og skuldsett og þar voru líka lítil og meðalstór fyrirtæki sem menn hafa haft að yfirskini að þessi lækkun veiðigjalda eigi að bjarga. En mörg þeirra fyrirtækja voru komin í ógöngur vegna allt annarra hluta en snerti rekstur þeirra beint í sjálfu sér, ekki vegna kvótakaupa eða fjárfestingar í greininni sjálfri heldur höfðu mörg hver farið óvarlega í fjárfestingum í óskyldum rekstri. Veiðigjöldin og auðlindarentan sem slík getur aldrei miðast við fyrirtæki sem eru komin í þá stöðu frekar en almenn skattlagning getur miðast við illa rekin fyrirtæki. Það verður auðvitað hver og einn að bera ábyrgð á fyrirtæki sínu alveg eins og hann ber ábyrgð á sér og heimilisrekstri sínum. Það gengur ekki að hafa veiðigjöld að skálkaskjóli og kenna þeim um þó að vissulega sé sú staða alltaf ömurleg þegar fyrirtæki sjá ekki fram úr að geta rétt sig af.

Útgerðarfyrirtæki landsins hafa í gegnum tíðina haft meiri aðgang að almannafé en kannski fyrirtæki í öðrum rekstri. Ég held að útgerðarfyrirtæki hafi oftar en ekki náð eyrum stjórnmálamanna og fengið fyrirgreiðslu. Stundum hefur það verið lenging í hengingaról og ef til vill ekki neinum greiði gerður með því, en ég held að margir atvinnurekendur í öðrum greinum hafi verið svolítið ósáttir, kannski oftar en ekki, við að þegar basl er í útgerðinni hafa menn oft náð eyrum ýmissa aðila í stjórnkerfinu, svo sem Byggðastofnunar, sem hafa komið inn með aðstoð sem hefur jafnvel ekki alltaf átt rétt á sér þótt hún hafi oft átt rétt á sér. Það hlýtur að vera krafa á þá sem eru í rekstri að reka fyrirtæki sín vel og ef menn fá fyrirgreiðslu og aðstoð umfram það sem hinum almenna borgara býðst verður að rökstyðja með góðum hætti að eitthvert jafnræði sé á ferð en ekki að duttlungar hverju sinni í stjórnkerfinu eða í fjármálakerfinu ráði þar för.

Það er líka það sem fólki finnst núna þegar stórútgerðirnar í landinu hafa eins mikinn hagnað og liggur fyrir, og hefur ekkert verið deilt um það, og hafa jafnvel fengið mikið afskrifað í bankakerfinu, að þær geti þá ekki staðið undir eðlilegri auðlindarentu sem renni til samfélagsins en því fólki sem notar kannski síðustu krónurnar í útborgun hvers mánaðar til þess að greiða af húsnæðislánum sínum, bílalánum og eðlilegri framfærslu, sem reynir að standa skil á skuldum sínum, bjóðist ekki nein niðurskrift meðan það hefur einhverja greiðslugetu. Það er nú svo.

Ég vil nefna að mér finnst að atvinnuveganefnd eigi að taka upp þær tillögur sem minni hluti atvinnuveganefndar lagði fram og koma fram í nefndaráliti okkar og breytingartillögum. Það eru góðar tillögur sem ég held að menn ættu að geta sameinast um ef þeir meina eitthvað með því að þeir vilji koma til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég hef alltaf talað fyrir því að við þurfum að gera það og ég batt vonir við að veiðigjaldsnefndin sem var að störfum og er að störfum mundi gera góða úttekt á því hvernig staða þessara minni og meðalstóru fyrirtækja væri og koma með tillögur til úrbóta. Það var vilji okkar sem studdum síðustu ríkisstjórn að tekið yrði á akkúrat þeim hluta útgerðarinnar sem félli undir það. Tillögur okkar mæta vel þeim sjónarmiðum og ég teldi vera góðan brag á því að atvinnuveganefnd sammæltist um að rétta fram sáttarhönd og styðja tillögur okkar sem eru líka á hógværu nótunum varðandi lægri tekjur ríkissjóðs. Það mundi kosta rúmar 300 milljónir að hækka þetta frítekjumark en mundi skipta þá sem þar eiga í hlut miklu máli.

Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að huga að þeim hópi sem á í hlut og hvort þetta séu ekki alvöruaðgerðir ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji hag þessara fyrirtækja sem bestan, vitandi það að oft eru það lítil og meðalstór fyrirtæki sem halda uppi atvinnu í smærri byggðarlögum og skipta sköpum fyrir byggð þar, að þau geti haldið áfram að skapa vinnu og fólk geti áfram búið í sjávarbyggðum, það fólk sem vill búa þar og byggja sig upp þar. Það er auðveldara fyrir einstaklinga að fjárfesta í minni útgerðum og enginn möguleiki á að fara út í einhverja stórútgerð í þessum byggðarlögum sem standa mörg hver veik eftir þær afleiðingar sem kvótakerfið hefur haft smátt og smátt, brotið niður mörg minni samfélög. Mörg þeirra hafa getað byggt sig upp á öðrum forsendum meðfram því sem var aðalatvinnuvegurinn, sjávarútvegur, sem betur fer og þannig á það líka að vera. En útgerð, fiskvinnsla, sjósókn, þetta er auðvitað undirstaða þess að byggðirnar eigi tilverurétt og hafi möguleika á að spjara sig.

Mig undrar því líka þessi mikla neikvæðni núverandi stjórnvalda gagnvart strandveiðum, sem hafa verið mikil og góð viðbót við þá flóru sem fyrir er. Þær eru vissulega ekki á ársgrundvelli en þær hafa verið mikil viðbót fyrir þær byggðir sem hafa verið með smærri útgerðir, ekki átt kvóta til þess að róa á ársgrundvelli, getað haft viðurværi af því yfir veturinn en farið inn í strandveiðikerfið um sumarið og þannig skapað sér atvinnu á ársgrundvelli. Þetta þekki ég í minni heimabyggð á Vestfjörðum og víðar og veit að það hefur skipt miklu máli. Ég held að það eigi eftir að heyrast hljóð úr horni ef þessi hægri ríkisstjórn ætlar að fara að reyna að brjóta niður strandveiðikerfið sem þó komst á á síðasta kjörtímabili, ef þeir hafa uppi sama áróður og þeir voru með á síðasta kjörtímabili, að þetta væri leikaraskapur og fyrir einhverja aðra, enginn alvöruatvinnuvegur og bara fyrir þá sem væru að leika sér og hefðu ekkert með sjávarútveg að gera.

Annað hefur nú komið í ljós og ég vil í lok ræðu minnar biðla til hæstv. ríkisstjórnar að sýna af sér röggsemi og draga þessar lækkanir til baka, efla strandveiðar og taka svo upp það frumvarp sem síðasta ríkisstjórn lagði fram á vordögum um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu (Forseti hringir.) og afgreiða það.