144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Heildarbreytingar á tekju- og útgjaldafrumvörpunum valda 2,5% hækkun á matvælaverði samkvæmt upplýsingum frá hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni hér í ræðustól í umræðum um frumvarpið fyrr í haust. Meiri hluti þingmanna eru þeir sem ákveða hvað skal tekið af landsmönnum og skammtað til baka. Er það því ekki hollt þingmönnum að sjá hvað stofnanir hins opinbera og stjórnin segja að sé eðlilegt að fari í meðalmáltíðir landsmanna, að við sjáum hve hart eða gott er í ári hjá fólkinu sem við erum að skattleggja. Getur meðallandsmaður borðað sæmilegan, fjölbreyttan og hollan mat og kannski leyft sér smá kökusneið með kaffinu án þess að fara út fyrir þau mörk sem skattafrumvarpið gengur út frá? Eða er raunveruleikinn sá að forsendur hins opinbera standast ekki nema fólk borði einhæfan og síður hollan mat. Hver er raunveruleikinn?

Þurfum við ekki að þekkja raunveruleikann þegar við tökum ákvarðanir um skattana sem eiga að leggjast á mat? Ég sendi því hér með, eftir þessa ræðu, fyrirspurn á forseta og forsætisnefnd, sem ég trúi að forsetar þingsins muni hafna. Ég ætla samt sem áður að senda hana. Nema flokkarnir sem þessir aðilar í forsætisnefnd eru fulltrúar fyrir bendi þeim á að þetta sé þörf og góð reynsla fyrir okkur þingmenn. Tillagan er svohljóðandi:

„Er því eitthvað til fyrirstöðu að forsætisnefnd biðji eldhús þingsins um að hráefniskostnaður í hádegismat þingsins sé lækkaður úr 550 kr. í 248 kr.?“