144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[16:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Menntun er rosalega mikilvæg fyrir alla sem einn. Með það í huga vil ég samt segja: Stúdentspróf eru vita gagnslaus. Ég endurtek: Menntun er rosalega mikilvæg, stúdentspróf gagnslaus.

Það er rosalega erfitt að breyta kerfinu. Fólk er vant þessu ferli; leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli, háskóli. Það er erfitt að breyta en ef framhaldsskólinn breytist, hverfur jafnvel úr því formi sem hann er núna, þá breytir það því ekki að nemendur og kennarar verða áfram á þeim aldri að læra og kenna.

Nú þegar getur fólk skautað fram hjá stúdentsprófinu ef það vill komast í háskóla. Ég mæli ekki með því en það er hægt, það er erfitt en það er mögulegt. Aðgengið er takmarkað á landfræðilegan og peningalegan hátt en það er nákvæmlega þar sem við komum að kjarna málsins. Hvaða leiðir hefur fólk til að halda áfram að mennta sig? Tækifæri ungra foreldra og þeirra sem hafa ekki aðstæður eða efni á yngri árum, eða þeirra sem komast seint á menntabraut. Leiðirnar sem fólk hefur í stað þeirra sem verið er að klippa á eru ekki augljósar eða aðgengilegar öllum. Ef frumgreinadeildir og fjarnám eiga að vera lausnin þá vantar tilfinnanlega upp á stoðkerfið, t.d. tryggan aðgang að internetinu um allt land fyrir fjarnámið ásamt möguleikanum til að nálgast kennara án þess að þurfa að ferðast yfir hálft landið til þess. Því að sama er hversu frábæran möguleika fjarnám býður upp á þá er samvinna með kennara augliti til auglitis árangursríkasta kennsluaðferðin sem við kunnum. Því er verið að fjarlægja ákveðna möguleika til náms án þess að bjóða upp á sambærilega kosti í staðinn.

Varðandi það sem kom fram áðan vil ég endilega spyrja: Er verið að laga brottfall með því að koma í veg fyrir að nemendur í einhverjum áhættuhóp fari í námið? Það hljómaði dálítið þannig.