144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:29]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið, en það er eitt að halda sig við að svara því sem snýr að þessu frumvarpi og gera það ekki. Ég bið hæstv. ráðherra að svara mér: Af hverju að stíga það skref að heimila gjaldtöku ef hann telur að hitt sé vænlegra? Hverra er það að taka þá ákvörðun að stíga út úr gjaldtökunni ef ekki hæstv. ráðherra?

Ég spurði hve margir skólar ynnu nú þegar með mikið rafrænt námsefni og í hve miklum mæli. Ég bið hæstv. ráðherra að svara því.

Ég spyr hann líka um viðurkennt skólahúsnæði. Hér er talað um starfsaðstöðu, húsnæði skóla og aðbúnað. Eru einhverjir skólar sem uppfylla ekki þessi skilyrði, hafa til dæmis ekki mötuneyti eða eitthvað annað í þeirri grunnþjónustu sem ég tel að skólar eigi að hafa? Það hlýtur að vera eitt af því sem þeir eiga að uppfylla. Ég bið hæstv. ráðherra að svara mér því og upplýsa mig um það ef það er ekki þannig.

Ég spurði líka hversu margir væru að þiggja launað orlof og hversu langur biðtími væri þar undir og hvort Kennarasambandið hefði samþykkt að hafa þetta með þessum hætti án þess að óska eftir fjármunum í það, eða hvort það var ekki gert.

Ég spurði líka hver ástæðan væri fyrir því að kennsludögum er fjölgað um fimm. Við því komu engin svör.

Ég vona að hæstv. ráðherra, þó að hann haldi sig bara við frumvarpið, geti svarað þessu.