144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[18:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara segja það varðandi samanburðinn á íslenska námsmanninum og hinum erlenda að ég held að það sé ágætt að þroskast við það að læra, það auki þroskann. Sú staða er uppi að okkar nemendur koma eldri út. Ég held að þeir séu jafn þroskaðir jafnöldrum sínum, en þeir hafa bara lært minna.

Það er ástæða fyrir því að BHM er með það í menntastefnu sinni að stytta eigi námstíma til stúdentsprófs. Hvers vegna skyldi BHM leggja áherslu á það? Jú, hér er um að ræða kjör háskólamenntaðra einstaklinga. Það munar því hvort við klárum þetta nám árinu fyrr eða jafnvel tveimur árum fyrr þegar kemur að ævitekjum manna. Þess vegna leggur BHM á það þunga áherslu í menntastefnu sinni að nám til stúdentsprófs verði stytt.