145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

skipulagslög.

225. mál
[15:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010. Megintilefni frumvarpsins er þörf sveitarfélaga fyrir auknar heimildir til að grenndarkynna umsóknir um leyfi til framkvæmda þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.

Forsaga þessa máls er sú að með lögum nr. 59/2014, um breytingu á skipulagslögum, var meðal annars lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði laganna sem fjallar um meðmæli Skipulagsstofnunar vegna umsóknar um leyfi til framkvæmda þar sem ekki liggur fyrir skipulag sem og ákvæði laganna um grenndarkynningu.

Í frumvarpinu var meðal annars lagt til að almennt yrði heimilt að beita grenndarkynningu um umsóknir um leyfi til framkvæmda þar sem ekki lægi fyrir deiliskipulag, þ.e. ekki eingöngu þegar um væri að ræða þegar byggt hverfi eins og skipulagslög kváðu á um. Samhliða var lagt til að heimild til að óska eftir meðmælum Skipulagsstofnunar vegna framkvæmda félli niður þegar skipulag væri ekki til staðar. Um þá tillögu sagði meðal annars í athugasemdum við frumvarpið að í þeim sveitarfélögum þar sem aðalskipulag lægi fyrir væri almenna reglan sú að byggingarleyfi væri unnt að veita á grundvelli deiliskipulags eða grenndarkynningar og framkvæmdaleyfi á grundvelli deiliskipulags, grenndarkynningar eða beint á grundvelli aðalskipulags án frekari skipulagsgerðar eða kynningar. Ekki yrði séð að ástæða væri lengur til að heimila aðra málsmeðferð til bráðabirgða vegna leyfisveitinga til stakra framkvæmda í þeim sveitarfélögum þar sem gert væri ráð fyrir að aðalskipulag lægi fyrir í öllum sveitarfélögum fyrir 1. janúar 2008.

Í meðförum Alþingis voru breytingar gerðar á þessu frumvarpi sem leiddu til þess að engar heimildir eru nú í skipulagslögum fyrir sveitarfélag að veita leyfi til framkvæmda á svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag nema þegar um byggt hverfi er að ræða. Ljóst er að það var aldrei tilgangur með framangreindum breytingum að skerða heimildir sveitarfélaga til útgáfu leyfa til framkvæmda. Að mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er því nauðsynlegt að bregðast við. Í samráði við Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga er því í frumvarpinu lagt til að sveitarfélög hafi almenna heimild til að beita grenndarkynningu vegna útgáfu leyfa til framkvæmda þegar ekki er til staðar deiliskipulag án tillits til þess hvort um er að ræða þegar byggð hverfi eða ekki.

Til að útskýra þá breytingu sem hér er lögð til má nefna eftirfarandi dæmi: Til stendur að byggja íbúðarhús á jörð í dreifbýli þar sem önnur lögbýli eru í nágrenninu og ekki er til staðar deiliskipulag. Í samræmi við skipulagslög ber sveitarfélaginu að deiliskipuleggja svæðið með tilheyrandi kostnaði til að unnt sé að gefa út byggingarleyfi. Ef breyting sú sem hér er lögð til verður samþykkt getur sveitarfélag beitt grenndarkynningu í stað þess að deiliskipuleggja svæðið sem leiðir til hraðari málsmeðferðar og lægri kostnaðar.

Með áðurnefndu frumvarpi, sem varð að lögum nr. 59/2014, var einnig gerð breyting á skilyrðum fyrir grenndarkynningu. Til að unnt væri að beita grenndarkynningu skyldi framkvæmd vera í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Til þess að forsvaranlegt sé að falla frá meginreglu skipulagslaga um deiliskipulag við útgáfu leyfis til framkvæmda er hins vegar talið nauðsynlegt að framkvæmdin falli bæði að aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem felur í sér stefnumótun til a.m.k. 12 ára, og að hún sé einnig í samræmi við núverandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðarinnar. Í frumvarpinu er því lögð til breyting á skipulagslögum hvað varðar skilyrði fyrir grenndarkynningu.

Með frumvarpinu er einnig lögð til breyting hvað varðar grenndarkynningu óverulegra breytinga á deiliskipulagi. Fram kemur í skipulagslögum að ef um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða þá skuli sveitarstjórn láta fara fram grenndarkynningu. Talið er nauðsynlegt að fram komi í lögunum að sveitarstjórn sé ekki í öllum tilvikum skylt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi. Sveitarstjórn er einnig heimilt að fara hefðbundna leið við breytingu deiliskipulags ef hún kýs svo. Einnig getur sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá grenndarkynningu að vissum skilyrðum uppfylltum, t.d. þegar ljóst er að hagsmunir nágranna skerðast ekki.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.