146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að sýna smákurteisi sem ég var sekur um að sýna ekki hér áðan. Tíminn var svo skammur í andsvörunum, við vorum svo mörg, að mér láðist að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með að vera kominn í þá stöðu að flytja hér fjármálastefnu og til hamingju með að vera kominn í embættið. Það læðist þó sá grunur að manni að maður þurfi hálfpartinn líka að samhryggjast því að það hlýtur að vera dálítið erfitt að standa hér og flytja fjármálastefnu hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, ekki síst eftir að hafa farið í gegnum kosningabaráttu fyrir skemmstu, gagnrýninn á þann ráðherra sem þá sat við völd, boðandi kerfisbreytingar og nýja tíma. Þá hlýtur það að vera dálítið ankannaleg staða að standa hér og tala fyrir óbreyttri stefnu fyrri ríkisstjórnar. Það er ekki bara eitthvað úr kollinum á mér, heldur beinlínis viðurkenndi hæstv. fjármálaráðherra það í andsvörum áðan aðspurður um hvernig brúka ætti fé úr einskiptisaðgerðum, því að þá vísaði hann beint í fyrrum fjármálaráðherra og þá stefnu sem samþykkt hefði verið á þingi síðastliðið vor.

Það er dálítið sérkennilegt að ræða fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar, nýs hæstv. fjármálaráðherra úr nýjum flokki sem boðaði miklar kerfisbreytingar, sem byggir algjörlega á fyrri fjármálastefnu. Varðstaða hefur verið um fjármálastefnu Bjarna Benediktssonar. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ræður enn för í þessari fjármálastefnu.

Þó má segja að hæstv. fjármálaráðherra hafi sent forverum sínum kannski ekki kaldar kveðjur, en svona hálfvolgar, því að í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Ytri aðstæður hafa fyrst og fremst stuðlað að því að verðbólga hefur haldist lág undanfarin tvö ár.“

Þetta er kannski ekki alveg í samræmi við það sem fyrrverandi fjármálaráðherra hefur sagt, sem hefur gumað töluvert af hagstjórnarkænsku sinni og fyrri ríkisstjórnar, því að hér er beinlínis fullyrt að staða verðbólgumála hér á landi undanfarin tvö ár sé ytri aðstæðum að þakka.

Í umræddri þingsályktunartillögu er töluvert farið yfir verkefnið sem fram undan er, hagstjórnarverkefnið, að það sé sveiflujöfnun fyrst og fremst. Með leyfi forseta segir:

„Greiningaraðilar sem fjalla um efnahagsmál, bæði innlendir og erlendir, eru samdóma um að brýnt sé á komandi misserum að hagstjórnartækjum, bæði á sviði peningamála og opinberra fjármála, verði beitt með samhæfðum hætti til að sporna gegn þenslu og ofhitnun …“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Hagstjórnarverkefnið fram undan beinist því einkum að sveiflujöfnun með hagstæð efnahagsskilyrði fremur en að takast þurfi á við bresti eða áföll í efnahagslífinu.“

Þetta eru ágætisfyrirheit, en þrátt fyrir þau fyrirheit og þetta verkefni sem hér er ágætlega útlistað á ekki að treysta tekjugrunn ríkisins. Það er eins og hæstv. fjármálaráðherra sé það eitur í beinum að treysta tekjugrunn ríkisins sem nota það sem tæki til sveiflujöfnunar, sem er þó engin nýlunda að slíkt gæti gengið. Sömu markmið eru í þessari fjármálastefnu og þeirri fyrri sem lögð var fram síðasta sumar og samþykkt. Hér er sagt að tekjuaukningunni séu settar skorður af hagsveiflunni. Ég reyndi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þetta í andsvörum í morgun. Ég verð að játa að ég fékk ekki alveg botn í svarið, en ég er náttúrlega nýr þingmaður og skil kannski ekki allar flækjurnar í þessu. En ég skil þó það sem segir í umsögn Seðlabanka Íslands við fjármálastefnuna frá síðasta vori. Þar segir um þessi markmið, með leyfi forseta:

„Stefnumiðið virðist því fyrir fram setja skorður við sjálfvirka sveiflujöfnun á tekjuhlið opinberra fjármála og fela í sér að ef hagvöxtur reynist kröftugri skuli gefa eftir tekjur. Þetta er sérlega bagalegt í ljósi þess að reynsla undanfarinna áratuga gefur vísbendingu um að hin hagsveiflutengdu áhrif séu í raun sterkari en hefðbundnar aðferðir við mat á sveifluleiðréttum jöfnuði hafa leitt í ljós og til þess fallið að ýta undir hagsveifluna fremur en milda. Frumgjöld hafa á hinn bóginn tilhneigingu til að lækka í takt við aukinn hagvöxt, en til þess að mæta sjálfvirkri slökun sem felst í ofangreindri tekjureglu yrði að skera útgjöld enn frekar niður.“

Þjált og fallegt og nokkuð skýrt.

Seðlabankinn segir þetta í umsögn um fjármálastefnuna í vor. Ég reyndi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þessa gagnrýni Seðlabankans og hvernig hann svaraði henni. Það er, líkt og ég kom aðeins inn á áðan, eins og það sé einhver trúarsetning þvert ofan á það sem getur talist hagfræðilega skynsamlegt að hækka ekki skatta, svo ég segi það hreint út; orðið sem margir virðast óttast að taka sér í munn í stjórnmálum nútímans, treysta ekki tekjugrunn ríkisins er það kallað þegar við stjórnmálamenn viljum ekki standa einhvers staðar fyrir framan almenning og tala um skattahækkanir. Tekjugrunnur ríkisins hefur verið veiktur mjög á undanförnum árum. Það er alveg ljóst. Ef öll þessi hagsveifla, þ.e. ef öll útgjöldin eiga að rúmast innan hagsveiflunnar þá erum við ekkert að fara í þau útgjöld sem flokkarnir lofuðu á færibandi rétt fyrir kosningar, stóðu keikir fyrir framan kjósendur sína og lofuðu hinu og þessu, en koma núna og segja: Þetta verður reyndar allt að rúmast innan hagsveiflunnar, það er smáa letrið sem við gleymdum að segja ykkur frá á fundinum sem við héldum með ykkur fyrir nokkrum mánuðum. Skattar eru nefnilega áhrifamikið tæki til að slá á þenslu eins og Seðlabankinn bendir á, að treysta tekjugrunninn.

Í tillögunni er nefnilega eins og oft og tíðum sé sagt A, hver eigi að vera markmiðin, en kjark skorti til að segja B, að til að ná þessum markmiðum þurfi að beita þeim aðferðum að treysta tekjugrunninn, að hækka skatta, valda skatta. Hér er enginn að tala um einhverja almenna skattahækkun á almenning. Ég velti fyrir mér og spurði hæstv. fjármálaráðherra að því í morgun, en hann svaraði engu: Kom aldrei til greina að skattleggja þá sem mestar eignir eiga til að afla samfélaginu tekna? Kom aldrei til greina að skoða fjármagnstekjuskatt, hann yrði kannski þrepaskiptur eða jafnvel hækkaður? Kom ekkert af þessu til greina?

Ég þykist muna eftir því að hafa hlustað á hæstv. fjármálaráðherra eftir að viðræðum fimm flokka lauk í, nú er maður svo tímavilltur, var það ekki í nóvember, desember? talandi um alls kyns tillögur Viðreisnar til tekjuöflunar. Voru það einhverjir milljarðar sem hann var kominn upp í sem Viðreisn eða þau voru tilbúin til að leggja til? Hvar eru þær tillögur í þessari fjármálastefnu? Kannski hvergi af því að þetta er fjármálastefna fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, sem hér er lögð fram.

Hvað þýðir fjármálastefnan verði hún samþykkt? Hvað um gagnrýni Seðlabankans ef á ekki að auka tekjurnar? Hvað þýðir ef niðursveifla verður? Verður þá niðurskurður, erum við að horfa fram á það?

Hér er talað um hagvaxtarskeið upp á a.m.k. áratug. Engu að síður er sérstaklega sleginn varnagli. Hér er sagt, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að verulegar launahækkanir á árunum 2015 og 2016 hafi enn sem komið er ekki leitt til hárrar verðbólgu er mikilvægt að ekki verði samið um launahækkanir á komandi misserum umfram verðbólgumarkmið og framleiðnivöxt þjóðarbúsins.“

Er aldrei sú staða uppi að það sé í lagi að fara bara í almennilegar launahækkanir? Tíu ára hagvaxtarskeið er ekki til þess. Vissulega þarf að hafa varann á og allt það. Við þingmenn erum nýbúnir að þiggja töluvert mikla launahækkun, getum við aldrei horft framan í það að kannski sé lag að fara í almennilegar launahækkanir? (Forseti hringir.)

Ég mun kannski koma hingað upp aftur. Ég frétti áðan að ég ætti rétt á annarri ræðu. Ég kem því kannski bara aftur og klára mál mitt á eftir.