149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áfengisauglýsingar.

116. mál
[17:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil taka sérstaklega fram, vegna þess að ég orðaði það þannig að einhvers konar sniðganga væri í tengslum við auglýsingabannið, að það er þó með þeim hætti að 20. gr. áfengislaga heimilar tiltekna tegund af auglýsingum á áfengi, m.a. notkun firmanafns í tilteknum tilvikum sem og styrki og annað auk þess sem auglýsa má léttöl. Það er því ekki mikið um að menn brjóti ákvæði áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum, þótt auðvitað komi þau mál upp af og til og þá er reynt að taka á því.

Einn hv. þingmaður nefndi áðan að forvarnirnar skiptu máli og samhengi væri milli auglýsinga og neyslu. Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það. Ég held að ósanngjarnt sé að halda því fram að auglýsingar hafi engin áhrif vegna þess að menn myndu ekki auglýsa nema af því að þeir trúa því að auglýsingar hafi áhrif. Ég þekki hins vegar ekki hvort það hafi þau áhrif að fá nýja neytendur að borðinu eða breyti aðeins neyslumynstri þeirra sem þegar neyta. Það kunna að vera til margar og misvísandi rannsóknir á því og ástæðulaust að hengja sig í þær.

Við þekkjum reykingar á svokölluðum vatnsgufum. Þetta er einhvers konar veip sem ég kann ekki að lýsa og hefur aldrei verið auglýst en er orðið viðtekin venja á meðal ungs fólks á Íslandi í dag. Ég held að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því. Þetta gerðist án þess að nokkur hafi auglýst þau tæki og tól sérstaklega.

Ég vil líka nefna að gott er að hafa í huga að auglýsingar erlendis, í Evrópu, eru mjög takmarkaðar. Þær eru bundnar mjög ströngum skilyrðum og ég tel sjálfsagt að skoða hvort þar séu einhver viðmið sem við gætum tekið upp. Fyrst og fremst hef ég þó áhuga á því að einkasala ríkisins á áfengi verði afnumin þannig að (Forseti hringir.) einkaaðilar geti tekið söluna og þar með markaðssetningu á áfengi í eigin hendur, sem þeir myndu væntanlega gera á miklu beinni hátt en með auglýsingum í dagblöðum eða sjónvarpi.