150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við í þessum sal erum búin að bíða eftir umgjörð um rekstur smálánafyrirtækja mjög lengi. Þessi fyrirtæki hafa verið gagnrýnd alveg síðan þau byrjuðu að starfa og hasla sér völl hér á landi. Þau komu þegar stórir hópar voru í sárum eftir efnahagshrun og þau græða á fólki sem stendur veikt fyrir og þau beina markaðssetningu sinni mjög ágengt að ungu fólki og fólki sem er hreinlega fátækt og grunur er um að muni ekki ná endum saman þegar mánaðamót nálgast.

Neytendasamtökin, Neytendastofa, umboðsmaður skuldara og reyndar ráðuneyti neytendamála hafa komið ítrekað fyrir efnahags- og viðskiptanefnd til að fara yfir þennan vanda og við höfum beðið eftir frumvörpum frá ríkisstjórninni. Og nú kom það. Hæstv. ráðherra mælti fyrir því áðan og það er bara ekki neitt neitt. Það gerir ekki nokkurn skapaðan hlut og bítur engan. Það gerir hreinlega ekki neitt. Það er meira um það hvernig skuldararnir eigi að borga en að setja ramma utan um fyrirtækin. Þessi fyrirtæki þurfa ekki leyfi til að starfa hér á landi. Þau þurfa ekki að uppfylla nein skilyrði til að fá leyfi til að starfa og Neytendastofa á að sjá um eftirlitið en ég tel miklu nær að slík fyrirtæki heyri undir Fjármálaeftirlitið, það sé bara almennilegt eftirlit með þessu og að við gerum almennilegar kröfur til þessara fyrirtækja. Þess vegna ákvað ég, þar sem ekkert kom frá ríkisstjórninni í fyrra, að útbúa frumvarp um smálánafyrirtæki sem gerir ráð fyrir að þau þurfi starfsleyfi og þar þurfi að kom fram m.a. upplýsingar um þá sem sækja um að reka smálánafyrirtæki og alls konar upplýsingar sem eru taldar upp í tíu liðum í 6. gr. frumvarpsins. Seðlabanka Íslands sé síðan heimilt að setja nánari reglur um upplýsingar sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi samkvæmt þessari grein, eins og stendur í lok greinarinnar.

Mér finnst það vera algjört grundvallaratriði að svona fyrirtæki þurfi starfsleyfi. Við þurfum að vita hver á þessi fyrirtæki, hver situr í stjórn fyrirtækjanna, hvaða áætlanir eru í viðskiptum þessara fyrirtækja. Í dag gerum við engar kröfur um þetta. Frumvarp hæstv. ráðherra gerir það ekki heldur og ég heyrði ekki betur á málflutningi hæstv. ráðherra en að hún teldi enga ástæðu til að þau fyrirtæki væru leyfisskyld hér á landi eða gera þyrfti nokkrar kröfur um ramma þeirra umfram það sem gert er í dag. Því er ég algerlega ósammála.

Samfylkingin gerði frumvarpið síðan að forgangsmáli sínu fyrr á þessu þingi og er það núna í umsagnarferli og umsagnir eiga að hafa borist núna á föstudaginn, þannig að vonandi tekur nefndin til við að vinna með frumvarpið. Ég vona að hv. stjórnarþingmenn taki það í mál innan nefndarinnar að þessi mál verði rædd saman vegna þess að einnig er gert ráð fyrir í því frumvarpi, sem ég er 1. flutningsmaður að, að það sé ekki alveg sama hverjir fái lán. Talað er um að 48 klukkustundir þurfi að líða frá því að umsókn um lán komi fram og þar til það er veitt og að lánið sé ekki afgreitt að nóttu til og ekki um helgar og að lánshæfi umsækjenda sé skoðað og það sé skoðað reglulega. Það eru því gerðar kröfur til þeirra sem taka lán og líka þeirra sem veita lánið og síðan er eftirlitsgjald. Fjármálaeftirlitið sjái um eftirlit með smálánafyrirtækjum og þau greiði fyrir það eins og önnur fjármálafyrirtæki greiða fyrir eftirlit.

Forseti. Ég varð fyrir óskaplegum vonbrigðum þegar ég sá þetta frumvarp frá hæstv. ráðherra en ég geri mér þó vonir um að við í efnahags- og viðskiptanefnd gerum á því breytingar og tökum inn í dæmið hvenær lánin eru veitt og hverjum og að við gerum auknar kröfur til þessara fyrirtækja og skyldna þeirra og að eftirlit sé haft með þeim. Ég hlakka til að vinna með málin og ég treysti því að hv. þm. Óli Björn Kárason, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, taki vel í það þegar ég óska eftir því á fundi nefndarinnar að þessi mál verði rædd saman og að við fáum tækifæri til að kalla inn gesti sem svara fyrirspurnum um bæði málin þannig að þingmannamál, sem hafa haldið uppi dagskrá þessa þings til þessa, fái þar sömu meðferð og mál frá ráðherra.

Auðvitað er málið okkar í Samfylkingunni viðameira og flóknara en þetta einfalda litla mál frá hæstv. ráðherra sem gerir nánast engar kröfur til smálánafyrirtækja sem fara afar illa með fólk eins og dæmin sanna. Það er ekki nóg með að smálánafyrirtækin séu með okurvexti og ósanngjarnar kröfur á lántakendur eftir að þau eru búin að lokka þá til að taka lán á nóttunni og um helgar þegar viðkomandi stendur kannski illa og er veikur fyrir. Það er ekkert athugað heldur eru innheimtufyrirtæki komin með í leikinn til að sjá til þess að fólk borgi okurlánin.

Herra forseti. Ég hef lýst vonbrigðum mínum með frumvarp hæstv. ráðherra sem mér finnst ekki vera neitt neitt og mætir ekki þeim vanda sem blasir við varðandi rekstur smálánafyrirtækja og jafnvel þó að hæstv. ráðherra segi að þetta sé skref af mörgum öðrum tók ég ekki eftir því eða ég skildi ekki á ræðu hennar hvaða skref ætti að taka í framhaldinu og hvenær. Það var bara verið að skoða hitt og þetta í ráðuneytinu.