150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:59]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka góð svör. Ég hefði haldið að smálánafyrirtæki féllu undir skilgreiningar um fjármálastarfsemi eða jafnvel bankastarfsemi í útlánastarfsemi. Ég skil ekki alveg af hverju þau falla ekki undir þann ramma. Ég skil ekki af hverju þau fá þá sérmeðferð í fjármálastarfsemi sem þetta augljóslega er, fá sérlagaramma og heyra undir Neytendastofu. Ég veit ekki hvort þetta er arfur liðins tíma eða hvenær þetta kom til. Gerðist þetta á óvart eða vorum við of sein að bregðast við og erum enn of sein að bregðast við? Ég get ekki séð neinar röksemdir fyrir því að smálánafyrirtæki teljist ekki bara hluti af fjármálastarfsemi og ættu þess vegna að falla undir Fjármálaeftirlitið. Ég er forviða. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er með söguskýringar á þessu, hvernig þetta gerðist. Ég gef henni alla vega tækifæri til að skýra þetta enn betur fyrir mér, fávísri konunni.