151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú eru þrjú ár síðan sitjandi ríkisstjórn tók við völdum. Þessi þrjú ár hafa verið viðburðarík. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á gott jafnvægi í ríkisfjármálum og að efnahagur vænkist hratt og að gæta þurfi að jafnvægi meðal allra sem landið byggja. Auk þess kemur þar fram að óvenjulegar aðstæður kalli á breytt vinnubrögð, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum.

Við upphaf ríkisstjórnarsamstarfsins hefði enginn getað gert sér í hugarlund hvað biði okkar á árinu 2020, enda hefur árið verið líkt og vísindaskáldsaga. Covid-19 skall á okkur með gríðarlegum verkefnum og breytti heildarmyndinni. Sú framtíð sem við okkur blasir er líkt og 5.000 kubba púsluspil sem ekki hefur verið raðað saman og engin fyrirmynd gefin til að byggja á. Enginn sá þetta ástand fyrir en það var sem hugsað væri fyrir því.

Nú er gott að hafa breiddina við ríkisstjórnarborðið. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið margvísleg. Unnið hefur verið að mörgum stórum og óvæntum verkefnum og ávallt með það að leiðarljósi að tryggja afkomu fólks. Í þessum aðstæðum reynir á sveitarfélög og þá grunnþjónustu sem þau þurfa að veita. Sveitarfélög eru misvel undir það búin að taka á sig þann kostnað sem breyttar aðstæður valda. Því skipta aðgerðir ríkisstjórnarinnar miklu fyrir rekstur sveitarfélaga um allt land.

Nú þegar eru félagslegar aðgerðir einar metnar á 24 milljarða kr. Í þeim felast m.a. úrræði á vegum stjórnvalda til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þá hafa 1,6 milljarðar kr. runnið til beinna félagslegra aðgerða til að tryggja þjónustu og stuðning við viðkvæma hópa. Ef litið er til þeirra aðgerða stjórnvalda má finna aðgerðir sem stuðla að því að halda atvinnulífinu gangandi, aðgerðir sem skila sér til baka með útsvari og sköttum sem halda hjólum samfélagsins gangandi. Áfram veginn!