151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega það sem maður er að hugsa eiginlega allan sólarhringinn. Það hafa verið miklar breytingar og það hefur sannarlega reynt á þolinmæði allra þetta haustið. Ég held að við séum búin að breyta reglugerðinni a.m.k. fimm sinnum, eða hvort það er sex sinnum, þ.e. hæstv. heilbrigðisráðherra hefur breytt reglugerðinni og við höfum þurft að aðlaga okkur að því. Samstarf okkar hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið einstaklega gott. Við höfum getað komið með athugasemdir skólasamfélagsins inn í reglugerðarbreytingar vegna þess að það þarf að vera hægt að framkvæma þetta.

Hv. þingmaður spyr: Hvað getum við lært af þessu? Í fyrsta lagi tökum við mjög mikið mið af því hvort hægt sé að framkvæma hlutina. Það sem við gerðum, og sumir gagnrýndu það, var að við notuðum heila helgi síðast til þess í raun og veru að búa til ramma sem er hægt að lifa með í faraldrinum. Við sjáum að við þurfum að hafa þessi hólf. Ég fékk kynningu á því hjá Íslenskri erfðagreiningu fyrr í vikunni hvað hefur gerst varðandi smit í sumum skólum. Þau geta líka breiðst mjög hratt út þar eins og annars staðar ef hólfun er ekki nægileg. Við sjáum því að það þarf að vera hólfun. Við þurfum að gæta þess í skólastarfi líka að það séu fjarlægðarmörk. Ef ekki þá ætlum við að nota grímurnar. Við erum að þróa þetta núna og erum komin á ákveðinn stað sem hægt er að búa við þrátt fyrir að smitin fari upp.