151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru .

160. mál
[12:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við munum greiða atkvæði með þessu máli en erum ekki á nefndaráliti. Ég vil útskýra hvers vegna. Dómstólarnir þurfa á þessum heimildum að halda til þess að réttarhöld tefjist ekki frekar en nauðsynlegt er á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru. Ég hefði viljað sjá þetta frumvarp koma fram fyrr. Það hefði verið hægt að flytja það á sumarþingi, þá hefði þessi heimild ekki runnið út og ekki legið eins mikið á að afgreiða það. Hægt hefði verið að ræða betur um tímalengd þessara undanþága sem eru í gildi og eiga í betri rökræðum um áhrif þeirra á réttindi sakborninga sérstaklega. Hins vegar eru þetta mikilvægar heimildir. Ég styð að þær séu til staðar. Ég vil ekki að réttarkerfið verði fyrir óþarfatöfum og þar með óþarfaréttarspjöllum. Við greiðum atkvæði með þessu en gerum þessa athugasemd við málsmeðferðina.