Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er mein í okkar samfélagi og gegn því verðum við að vinna með öllum tiltækum ráðum — breyta viðhorfi, efla fræðslu og bæta löggjöf og allt þarf þetta að vinna saman. Einn áfangi á þessari vegferð varð þegar þingið breytti skilgreiningu nauðgunar í hegningarlögum árið 2018 að mínu frumkvæði á þann veg að samþykki var fært í forgrunn skilgreiningar á nauðgun og horfið frá megináherslu á verknaðaraðferð. Rúm fjögur ár eru liðin frá því að lögin voru samþykkt og tóku gildi og því komin nokkur reynsla á beitingu þeirra.

Af því tilefni hef ég lagt fram skýrslubeiðni til dómsmálaráðherra ásamt 16 öðrum þingmönnum þar sem óskað er eftir upplýsingum um áhrif framangreindra breytinga á 194. gr. almennra hegningarlaga. Skýrsla af þessu tagi er nauðsynleg til að varpa ljósi á hvort breytingarnar hafi leitt til viðhorfsbreytingar í samfélaginu og því kerfi sem tekur slík brot til meðferðar. Það var jú tilgangurinn með lagabreytingunni, að það yrðu breytingar. Skýrslubeiðnin tekur til margra atriða og á að geta orðið grunnur að markvissri umræðu og frekari umbótum á þessu sviði.

Herra forseti. Það er nefnilega ekki alltaf nóg að breyta lögum. Við verðum að vita hvort það skilar árangri og hvort rétt sé að ganga lengra í úrbótum. Ég á því ekki von á öðru en að skýrslubeiðnin verði samþykkt af þingheimi á næstu dögum.