Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

um fundarstjórn.

[14:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað sem auðmjúkur þingmaður að leita ásjár forseta Alþingis við að fá hæstv. ráðherra til að svara þeim spurningum sem að þeim er beint hér undir liðnum óundirbúinn fyrirspurnatími. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Sigmar Guðmundssonar hérna rétt áðan þá spurði hann hæstv. innviðaráðherra og formann Framsóknarflokksins mjög einfaldrar spurningar um hvort þeim ráðherra hugnaðist sú harða innflytjendastefna að danskri fyrirmynd sem hæstv. dómsmálaráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins boðuðu hér einn af öðrum, um að halda fólki í lokuðum úrræðum á meðan það bíður niðurstöðu mála. Hæstv. ráðherra svaraði að honum fyndist hvorki rétt né tímabært að vera að fjalla um þetta, sem er þó til umræðu í fjölmiðlum og þinginu á hverjum einasta degi, á meðan einhver ráðherranefnd, sem hann á ekki sæti í, væri að fara að fjalla um málið kannski einhvern tímann seinna.

Virðulegur forseti. Þetta er ein leið þingheims til að fá ráðherra til að lýsa skoðun sinni á heitum málum sem eru í umræðunni og ég held að við hljótum að geta gert þá kröfu til ráðherra að þeir lýsi sinni skoðun hér í pontu en bíði ekki niðurstöðu einhverrar ráðherranefndar sem mögulega kannski einhvern tímann seinna mun fjalla um einhver mál.