145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:38]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæra Alþingi. Góðir áheyrendur. Þá er komið að því, kjörtímabilið er hálfnað og það er full ástæða til þess að spyrja okkur hvort við höfum gengið til góðs. Í upphafi 142. þings, strax eftir kosningarnar 2013, hélt ég því fram að komandi þingstörf gætu orðið þau bestu í sögunni. Ég er hræddur um að það sé langt í þá einkunnagjöf eftir þau tvö ár sem liðin eru, en næstu tvo ár eru enn þá óskrifað blað og við eigum möguleika á að breyta í rétta átt.

Stundum er sagt að það sé eins og stjórnmál séu orðin keppni í því að hafa rétt fyrir sér. Það er yfirleitt ekki sagt í aðdáunartón. Hverjum þykir sinn fugl fagur, eðlilega. Það er freistandi að nýta hvern möguleika til að koma vilja sínum fram, jafnvel að þröngva honum upp á þá sem eru annarrar skoðunar í krafti valds eða meiri hluta. Það er hættulegur ósiður því að þegar hlutverkin snúast við er hætt við að nýi meiri hlutinn, sem fannst á sér troðið áður, beiti nýfengnu valdi til að snúa hlutunum við og þröngva sínum áherslum að. Sú aðferðafræði er öngstræti sem leiðir til stöðnunar því að hvorki hverfa andstæðingar kvótakerfisins né aðdáendur þess þótt annar hópurinn nái vilja sínum fram að fullu. Um slíkt næst aldrei sátt. Eina leiðin til sáttar til langs tíma er samtal og samvinna allra sem koma að borðinu, bæði stjórnmálamanna og annarra.

Á síðustu þingum höfum við upplifað bæði gott og slæmt. Við höfum séð mál sem unnin hafa verið á breiðum grunni, með samráði og aðkomu. Slík mál hafa verið farsæl í þinginu og um þau hefur ríkt góð sátt. Gott dæmi er fyrstu skrefin í afnámi hafta sem samþykkt voru í sumar. En við höfum líka sóað miklum tíma og óendanlegum kröftum í mál sem komið hafa inn án samráðs, mál sem kastað hefur verið eins og sprengjum inn í þingið og hafa sett allt upp í loft. Dæmi um það eru aðildarviðræðurnar við ESB og tillaga um virkjanir fram hjá rammaáætlun. Engin myndaðist sátt um þau mál, hvorki á þingi né í þjóðfélaginu. Ekki var gerð tilraun til að ná um þau sátt og það var aldrei möguleiki á neinni sátt. Sátt og traust er ekki eitthvað sem hægt er að panta eða heimta.

Björt framtíð er nýtt stjórnmálaafl. Við erum í stjórnmálum til að gera gagn og standa fyrir umbótum. Umhverfi og mannréttindi eru okkur hugleikin og við kjósum að bregða þeim gleraugum á sem flest mál. En við erum ekki síst stofnuð um betri vinnubrögð og um langtímahugsun, um það að gera plan, plan sem endist og getur orðið að veruleika, plan sem er eitthvað annað en orðin tóm eða hugarleikfimi. Alvöruplan getur aldrei orðið til nema um það náist breið samstaða til að allir taki þátt í því svo það sé sameign allra.

Við höfum nálgast störf þingsins með því hugarfari. Við höfum staðið með góðum málum hvaðan sem þau koma og við höfum staðið hart gegn vondum málum. Við höfum ekki í hyggju að gera breytingu þar á og við erum stolt af þeirri vinnu. Umfram allt höfum við boðið upp á og kallað eftir langtímahugsun, samtali og samvinnu á þingi. Við viljum taka þátt í að breyta og bæta vinnubrögðin. Við erum tilbúin hvenær sem er, brettum upp ermar hvenær sem tækifæri gefst til þess.

Á þinginu hefur mér af einhverjum ástæðum oft orðið hugsað til indversku sjálfstæðishetjunnar Mahatma Gandhis. Í baráttu sinni ferðaðist Gandhi um Indland þvert og endilangt, talaði við fólk og hlustaði. Hann var meinlætamaður en algjör vinnuhestur og ferðaðist með stórum hópi fólks. Þrátt fyrir erilinn var eitt öruggt og það var að klukkutími á dag var frátekinn til íhugunar. Einn daginn lá óvenjumikið fyrir og aðstoðarmenn hans sáu ekki fram úr dagskránni. Þá tilkynnir okkar maður: „Það er svo mikið að gera að í dag að ég mun ekki hugleiða í klukkutíma.“ Aðstoðarmennirnir voru fegnir en umfram allt undrandi því að þetta hafði aldrei gerst áður. „Í dag er svo mikið að gera,“ sagði Gandhi, „að við þurfum að íhuga í tvo klukkutíma.“

Heitt hjarta en kaldur haus. Þótt verkefnin séu mörg og flókin verðum við að gefa okkur tíma og/eða tóm til að leysa þau vel. Og allar hendur á árar.

Við lifum merkilega tíma, það eru miklar breytingar alls staðar í kringum okkur og hjá okkur sjálfum, ekki bara þessi missirin heldur hreinlega þessa áratugina. Heimurinn er að gjörbreytast. Ísland er líka að breytast. Þessar breytingar okkar eru stærri en svo að þær tengist bara efnahagshruninu og afleiðingum þess. Þær breytingar tengjast gróðurhúsaáhrifum og ofnýtingu auðlinda jarðarinnar, stórkostlegri fjölgun flóttamanna, krossáhrifum rísandi, fallandi og hrynjandi gjaldmiðla hingað og þangað um heimskringluna o.s.frv. Við ofnýtum jörðina og það er ekki góður bisness því að komandi kynslóðir eiga eftir að taka við henni og búa á þessari jörð og við eigum ekki aðra til vara.

Internetið, breyttir framleiðsluhættir, hnattvæðing, upplausn heimsvelda, auknir ferðamöguleikar milli landa og heimsálfa, allt hefur þetta stórkostlegar breytingar í för með sér fyrir lífsstíl og lífsgæði fólks, samfélög okkar og lífsmöguleika. Ísland gengur í gegnum margar þessar breytingar einfaldlega vegna þess að við erum hluti af umheiminum og við erum háð honum. Það er ofan á þær breytingar sem við höfum upplifað eftir hrunið, bæði fjárhagslegu kreppuna og þá andlegu sem hreinlega má líkja við áfallastreitu.

Meistari Rúnar Júlíusson sálugi sagði gjarnan: „Það býr oft dulbúin gæfa í áföllunum.“ Það á að mörgu leyti við um árin eftir hrun því að á sama tíma og efnahagsáföllin dundu yfir og traust á stofnanir samfélagsins hrundi vaknaði líka ný hugsun um aðrar leiðir, önnur gildi og aðra aðferðafræði. Það eru mikil átök í íslensku samfélagi í dag en þau eru ekki bara um áhrif og völd, þau eru ekki einskorðuð við hægri eða vinstri, landsbyggð eða höfuðborgarsvæði, handhafa fjármagnsins eða almenning. Þessi átök eru um grundvallarbreytingarnar, um það hvort við ætlum að gera hlutina öðruvísi, á lýðræðislegri hátt, að byggja upp til framtíðar og stokka í alvörunni upp eða hvort ætlum við að halla okkur áfram að því sem við erum vön þó svo að reynslan hafi ekki alltaf sýnt okkur að það sé gæfulegt. Þessi sömu átök eru sýnileg á heimsvísu þegar við horfum á umhverfismálin, umræðuna um misskiptingu auðs innan samfélaga og á milli landa.

Ég held að það sé engin tilviljun að línurnar í þessum átökum séu frekar milli kynslóða en hópa. Heimurinn er að gjörbreytast og hann er búinn að vera það síðustu tvo, þrjá áratugi og heldur áfram að gera það. Þau sem eru yngri hafa einfaldlega alist upp við þessar breytingar. Þau átta sig á því að kyrrstaða og gömlu lausnirnar eru ekki lengur boðlegar.

Við tölum stundum um að það sé skortur á trausti í íslensku samfélagi. Traust almennings til Alþingis og stjórnmálaflokka er í frosti. Það er vont en það er ekki vandamál almennings, vandamálið hlýtur að liggja hjá okkur hér. Getur verið að þetta vantraust byggi á vantrú á því að við sem stundum stjórnmál alla daga séum meðvituð um breytingarnar í heiminum? Það þurfum við að afsanna, alþingismenn allir. Við þurfum að vera meðvituð um og tilbúin til þess að leiða breytingar til góðs jafnvel þó að það sé erfitt og jafnvel þó að landslagið sé ókunnugt.

Ég ætla að tala aðeins um tilfinningar. Afstaða fólks til hvers annars, manna og málefna byggir á tilfinningum. Það á líka við um stjórnmál og þau málefni samfélagsins sem eru vettvangur stjórnvalda og Alþingis. Almenningur er vel inni í málunum og hann hefur sterkar og úthugsaðar skoðanir um flókin viðfangsefni þó að hann sé ekki í fullu starfi eins og við sem hér sitjum, viðfangsefnin sem við alþingismenn njótum í ofanálag hjálpar sérfræðinga við að skilja. Alþingi er málstofa og okkar hlutverk er að tala. En okkar hlutverk er ekki síður að hlusta og eiga samtal við almenning. Það hvernig við hlustum, eða kannski hvernig fólk upplifir að við hlustum stundum ekki, held ég að hafi meiri áhrif á það hvort almenningi finnist Alþingi traustsins vert.

Það er ekki hægt að tala um tilfinningar án þess að minnast á vanda flóttamanna og í mínu tilviki reyndar án þess að minnast á Jóhann Pétursson risa. Flóttamannavandinn hefur hvílt þungt á hjarta mínu undanfarið eins og á hjörtum allra landsmanna. Það er óþolandi tilfinning að geta ekki gert meira til að hjálpa einstaklingum í neyð, einstaklingum sem flýja til að bjarga lífi sínu og lífi barnanna sinna. Í sumar átti ég leið um Byggðasafnið Hvol á Dalvík. Þar er sýning um heimamanninn Jóhann risa. Jóhann ólst upp í kreppunni og varð ungur risi að hæð. Hann eyðilagði á sér fæturna með því að stunda sjóinn í allt of litlum skóm. Á endanum sá Jóhann ekki fram á að geta framfleytt sér í heimalandinu Íslandi og flutti utan þar sem hann stundaði sýningarstörf á sjálfum sér, störf sem hann hafði alltaf skömm á, en neyðin kennir … og allt það. Jóhann var í raun og veru flóttamaður frá eigin landi. Ég hef alltaf upplifað að við Íslendingar höfum alltaf skammast okkar fyrir hlutskipti Jóhanns risa. Við skiljum sögu hans af því að hann var nafngreindur maður, hann var annálað góðmenni, hann var úr sama umhverfi og afar okkar og ömmur. Eins skömmumst við Íslendingar okkar fyrir aðgerðaleysi okkar gagnvart gyðingum á flótta við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Nú eru fleiri á flótta en nokkru sinni seinustu áratugi. Það er siðferðisleg skylda okkar Íslendinga að gera betur í móttöku flóttamanna en auðvitað þurfum við að tryggja að rétt og vel sé haldið utan um þá móttöku. Það er risavaxið verkefni. Ég fagna ráðherranefnd um málefni flóttamanna. Við í Bjartri framtíð erum boðin og búin til þess að gera það sem við getum til að hjálpa til og styðja við góð verk.

Kæra Alþingi. Gerum betur. Við höfum tvö ár sem eru óskrifuð. Stöndum að góðu en ekki lélegu. Stuðlum að réttlæti og berjumst gegn óréttlæti. Ég hef fulla trú á okkur alþingismönnum. Við erum fólk. Vinnum bara eins og fólk og verum eins og fólk. — Góðar stundir og góða ferð.