146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að fara að nýju yfir peningamálastefnuna. Það hefur í sjálfu sér verið lagður grunnur að því með mjög viðamiklu riti Seðlabankans um þau efni. Ég tel að við þurfum meðal annars að velta fyrir okkur hversu stíft við eigum að styðjast áfram við verðbólgumarkmið og að hvaða leyti við ættum að horfa í auknum mæli til efnahagslegs stöðugleika. Við þurfum líka að fara yfir það ef samsetning hagkerfisins breytist við það að verulegur bati verður á þjónustujöfnuði með innstreymi gjaldeyris. Hvernig eigum við að bregðast við þeirri stöðu? Hvernig eigum við að horfa til lengri tíma varðandi stýringu þeirra þátta?

Peningamálastefnan sem gilt hefur er svo sannarlega ekki hafin yfir gagnrýni, en ég tel að hið undirliggjandi vandamál sem valdið hefur þeim sveiflum sem hv. þingmaður rekur hér sé annars vegar ósætti á vinnumarkaði og of lítill agi í opinberum fjármálum, sem aftur má að sumu leyti rekja til þess að menn hafa ekki alltaf haft nægilega góða yfirsýn yfir stöðuna, samanber það sem gerðist í bankahruninu.