146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta voru áhugaverð skoðanaskipti hér í lokin. En það er ekki ofsögum sagt að ákveðin tímamót séu í fjárlagavinnunni sem við stöndum núna frammi fyrir bæði hvað varðar tímaþröngina sem við erum svo sannarlega í vegna þessara aðstæðna en ekki síður vegna nýrra laga um opinber fjármál og framsetningu þeirra. Það tekur töluverðan tíma að komast í gegnum það þrátt fyrir að maður hafi áður getað flett í gegnum þessar bækur og áttað sig á málum eftir þó svolitla vinnu, því að það er ekki beinlínis einfalt og hefur aldrei verið að lesa sig í gegnum fjárlögin.

Mér þykir þetta fjárlagafrumvarp ekki alveg jafn gagnsætt og fjármálaráðherra hefur talað um, mér finnst aðgengið ekki sérlega gott. Hér eru miklar tölur í því formi að maður getur illa nýtt sér þær til einhverrar vinnu, t.d. til að bera saman og annað slíkt. Það er ekki hægt að taka þær á rafrænu formi sem tölva getur lesið með almennilegum hætti því að þetta er jú allt í pdf-skjölum.

Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að þingið hefur auðvitað tækifæri í ljósi stöðunnar, í ljósi þess að hér er ekki starfandi meirihlutaríkisstjórn heldur starfsstjórn er margt í kortunum. Ég hef sagt að ég telji þessa vinnu vera eina af leiðunum til þess að sjá hvar fólk stendur saman til tekjuöflunar, til útgjalda o.s.frv., til að sjá hvar það getur nálgast og hvernig. Hér eru einir sjö flokkar inni og væntanlega eru allir tilbúnir til að vera í ríkisstjórn og þá finnst mér þetta einmitt vera leiðin til þess, því ef við náum ekki saman um fjármálin er hætt við að við náum ekki saman um margt annað. Á þessu byggir flest allt sem við gerum hér.

Hér hefur verið talað um hagvöxt og góðæri og stöðuna sem hefur sem betur fer verið á uppleið alveg síðan 2010 og eiginlega ævintýralegt að við skyldum hafa getað snúið blaðinu við svona fljótt, að staðan skuli raunverulega vera eins góð og hún er. Ríkisstjórnin sem tók við eftir hrun skilaði af sér góðu búi til ríkisstjórnarinnar sem nú er að fara frá völdum. Á þeim tíma hefur eiginlega allt fallið með henni og nú búum við við þá stöðu sem hér hefur verið rakin. Henni fylgja auðvitað vandamál eins og hefur líka verið farið yfir, þ.e. þensla og styrking krónunnar og annað slíkt. Ferðaþjónustan rís og styrking krónunnar getur haft þau áhrif að einhverjir ferðamenn fara kannski að hugsa sig um, t.d. Bretar en hún hefur líka orðið til þess að fjármagnseigendum þykir ágætt að eiga hér fjármuni. Og eins og kom fram í andsvari áðan er vaxtastaðan á Íslandi allt önnur en mjög víða annars staðar í samanburðarlöndum okkar.

Þetta þýðir kannski að fram koma þau klassísku þenslumerki sem við höfum talað um og allir eru sammála um að við viljum gæta að okkur þannig að ekki fari allt í óefni. En því miður eru ákveðin merki í stöðunni þess efnis. Og af því að hér voru m.a. ræddar skattalækkanir eða skattahækkanir þá styður það auðvitað ekki við peningastefnuna að fara í skattalækkanir. Það gerir það bara ekki. Þetta frumvarp er mjög pólitískt. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Það er byggt á pólitískri ríkisfjármálaáætlun sem var lögð fram í vor og samþykkt af meiri hlutanum á þingi sem þá var og ber þess auðvitað merki. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir stendur hann við það að leggja til að miðjuþrepið verði fellt í burtu og fleira sem byggir á pólitískri stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þannig er það.

Við þurfum vissulega að gæta okkar. Allir þurfa að hafa það hugfast þegar við tölum um stöðuna, hvernig við bætum, breytum og gerum. Við þurfum að gera það. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því, þrátt fyrir að töluvert hafi verið að gert. Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem ráðherrann fór yfir varðandi almannatryggingar eða fleiri þætti sem hafa verið nefndir. En það er þó þannig með almannatryggingar, því miður, að þar er mjög takmarkaður hópur sem nýtur þrátt fyrir allt þeirrar miklu hækkunar sem sumir einstaklingar fengu, einstaklingar sem hljóta sérstaka heimilisuppbót en ekki t.d. hjón. Það eru ekki allir sáttir við hvernig farið var í þá aðgerð. Hún hefði getað verið til meiri jöfnunar en raun bar vitni. Það er líka svo að öryrkjar sitja enn eftir. Við skulum ekki gleyma því að þar er ákall þegar talað er um að laun hafi hækkað svo mikið, það sé ástæðan fyrir mörgu í útgjaldaliðum. Þeir hópar sem lakast standa sitja enn þá eftir og ekki er gert ráð fyrir þeim í ríkisfjármálaáætlunum. Ég held að mjög margir flokkar á þingi hafi samt talað fyrir bættum hag þessara hópa í kosningabaráttunni.

Við Vinstri græn lögðum fram fyrir kosningar ríkisfjármálaáætlun okkar því að við teljum að ekki sé hægt að bíða lengur. Það er mjög mikilvægt og við höfum líka talað fyrir því að greiddar séu niður skuldir. Ég held að við séum flest sammála um að það þurfi að gera. En það er ekki hægt að ýta inn í framtíðina mikið lengur mjög mörgum verkefnum, samanber mjög víða í samgöngum, í heilbrigðismálum og menntamálum. Það er bara ekki hægt. Og það er ekki nóg að gert. Ég vona að í umræðunni og á milli þingflokka myndist eitthvert bandalag um að gera betur en er í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem hér liggur fyrir. Það er líka ekki ásættanlegt að tveir ráðherrar úr sömu ríkisstjórn og sama þingflokki meira að segja leggi fram sína áætlunina hvor sem stangast algerlega á. Það gerðist þegar ríkisfjármálaáætlunin var lögð fram annars vegar og samgönguáætlun hins vegar. (Fjrmrh.: Það var þingið sem …) Ég er ekki að tala um, hæstv. ráðherra, niðurstöðuna sem varð á lokadögunum í umræðu um samgönguáætlun. Það veit ráðherra vel að samgönguáætlun eins og hún var lögð fram af ráðherra í ríkisstjórn hans var ekki fjármögnuð, hvað þá þær viðbætur sem hann samþykkti ásamt mér og fleirum á lokadögum þingsins. Bara til að hafa það rétt. Og var hún nú ekki beysin. Það var samt sem áður fyrsta samgönguáætlun sem sú ríkisstjórn hafði samþykkt. En burt séð frá því höfum við, af því að við erum öll jöfn hér inni, það er enginn einn eða tveir flokkar sem ráða, bullandi tækifæri til að gera betur. Og ég ítreka að ég vona að það verði gert.

Þetta skiptir máli. Og það er líka vert að velta fyrir sér, því að ég talaði um samgönguáætlun: Hvað þýða þessar 300 milljónir t.d. í Dýrafjarðargöng? Hvað er raunverulega inni? Það var búið að samþykkja ákveðna langtímaáætlun, búið að samþykkja áætlun ráðherrans með viðbótum. Ef fjármálaráðherra hefur ekki séð ástæðu til að samþykkja áætlun ráðherra í sinni eigin ríkisstjórn fyrir viðbætur veltir maður fyrir sér hvað sé inni og hvað úti að þeirra mati. Mér finnst það umhugsunarefni. Það er svolítið ódýrt þegar maður kemur fram með einhverja stefnu að ætla svo einhverjum öðrum að taka ákvörðun um hvernig hún eigi á endanum að líta út, þó svo að ég sé mjög þakklát fyrir þingræðið. Ég held að það geti skipt miklu máli og breytt töluverðu.

Við heyrum þrátt fyrir allt ákall þessa síðustu daga. Landspítalinn segir að hann þurfi að loka eða setja fólk út, annað sé ekki í boði miðað við þær fjárveitingar sem lagðar eru til í þessari ríkisfjármálaáætlun, það þurfi að fara upp í ráðuneyti vegna þess að samkvæmt nýju lögunum ber þeim skylda til að bregðast strax við. Þeir verða að ná árangri strax í því að skera niður. Hér er hæstv. heilbrigðisráðherra. Það væri áhugavert að heyra hvernig hann sér fyrir sér að þjóðarsjúkrahúsið okkar geti brugðist við í ljósi þess sem það ekki fær eða upp á vantar.

Það sama á við um menntakerfið og löggæsluna. Ég hef rætt mikið um báða þessa þætti í þingræðum mínum. Auðvitað óar mér við því ef Háskólinn á Akureyri sem á 30 ára afmæli á næsta ári þarf að skera niður um eina, tvær deildir, að það verði afmælisgjöfin, til þess að halda sjó. Við vitum að við stöndum langt að baki samanburðarlöndunum eins og öðrum Norðurlöndunum og OECD-markmiðum o.s.frv. Það væri áhugavert að vita hvort staðfest sé af hálfu rektora að sú viðbót sem hér er lögð til dugi til að þessir hlutir þurfi ekki að eiga sér stað.

Þegar maður les í gegnum frumvarpið eru þar nokkrir áhugaverðir þættir þar sem farið er algerlega gegn því sem sagt er. Mér finnst þetta mjög sérstakt. Það er talað um uppsafnaða þörf fyrir ríkisstyrktar framkvæmdir í höfnum sem byggir á því að breyting varð á hafnalögum árið 2014 varðandi greiðsluþátttöku ríkissjóðs þar sem styrkhæfum framkvæmdum var fjölgað. En hér eru fjárveitingar til hafnarmála lækkaðar. Það er í rauninni verið að bregðast neikvætt við. Það eru mjög víða þannig, því miður. Ég geri mér grein fyrir að við getum ekki farið í allt eða gert alla skapaða hluti, það er enginn að tala um það. En við þurfum að bregðast við þessum brýnu málum sem ákall um af hálfu heilbrigðismálanna, menntamálanna, af hálfu þeirra eldri borgara og öryrkja sem enn þá sitja eftir, löggæslunnar, Landhelgisgæslunnar og fleiri. Við Vinstri græn lögðum áherslu á að fara í umbætur í þessum málaflokkum. Við vorum með ákveðnar forsendur, tekjuöflunarforsendur sem eru vel raunhæfar. Í þeim tillögum er ekki verið að setja neinn á guð og gaddinn eða setja sjávarútveginn á höfuðið eða eitthvað slíkt.

Það kemur fram á bls. 269 í frumvarpinu, því að ég var áðan að tala um vegamálin, að í krónum talið voru framlög til vegamála á yfirstandandi ári um 8.000 millj. kr. lægri en meðaltal síðustu 40 ára. Það eru svolítið miklir peningar í vegakerfi sem uppfyllir ekki lágmarksöryggiskröfur sums staðar. Við þurfum að horfast í augu við þetta. Ég biðla til þingheims og fjárlaganefndar um að við störfum þétt saman. En við gerum það ekki bara þar. Það þarf auðvitað fólkið í flokkunum á bak við breytingar. Þegar við horfum á aukningu ferðamanna sem eykur álag á vegina, á heilbrigðisþjónustuna, eykur álag á alla innviði samfélagsins meira og minna, getum við ekki bara nánast setið hjá. Það er ekki hægt.

Við höfum gert samkomulag um að lækka skuldir. Í það eiga m.a. stöðugleikaframlögin, eignasala, sem út úr búunum kemur, vænti ég, að fara. Þá eigum við ekki að lækka skatta og ýta undir að staðan verði ekki eins góð og hún getur verið og gera hana viðkvæmari en ella.

Herra forseti. Það er ekki hægt að tala um allt á þessum stutta ræðutíma, allra síst þegar fólk fær fjárlagafrumvarp í hendurnar seinni partinn í gær sem á svo að lesa og fara yfir og fá örkynningu á. Vinnan á næstu dögum og vikum verður mjög stíf. Við reynum auðvitað, held ég, að klára (Forseti hringir.) málið en til þess verður að nást sæmileg sátt um brýnustu málin.