146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki verið einfalt að skilja hvernig málaflokkur fatlaðs fólks hefur verið fjármagnaður. Það tengist því hvernig ákvörðun var tekin varðandi yfirfærsluna. Við höfum verið að vinna okkur jafnt og þétt í gegnum hana. Við höfum líka jafnt og þétt verið að bæta fjármunum inn í málaflokkinn, en að sama skapi höfum við líka verið, eins og hv. þingmaður bendir á, að auka þjónustuna. Þar af leiðandi hefur þetta kostað meira.

Spurt er hvort rétt sé að gera aðhaldskröfu eða ekki. Það hefur verið hlutverk hvers og eins ráðherra að útfæra almenna aðhaldskröfu sem hefur komið á öll ráðuneyti. Síðustu tvö árin hafa almannatryggingar og Atvinnuleysistryggingasjóður að vísu verið undanskilin, enda tekur verulega í þegar finna þarf þá fjármuni þó að það séu lágar prósentur.

Það hefur hins vegar líka verið áherslan, sem endurspeglast í þessu fjárlagafrumvarpi, að ekki sé gert ráð fyrir fjármunum á grundvelli laga sem Alþingi er ekki búið að samþykkja og ekki búið að móta sér stefnu um, þ.e. hvernig standa eigi að því. Stjórnarsáttmáli liggur ekki fyrir. Nú erum við því fyrst og fremst að sjá hvað það er sem við getum náð saman um. Ef fulltrúar allra þingflokka geta komið sér saman um ákveðnar lagabreytingar vænti ég þess að við getum komið því á framfæri við fjárlaganefnd og óskað eftir fjármunum til að tryggja að við getum farið í þá lagabreytingu.