146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem við ræðum fjárlagafrumvarp eftir að ný lög um opinber fjármál tóku gildi. Ég tók þátt í vinnu við að ganga frá því frumvarpi með síðustu fjárlaganefnd. Það var sem betur fer samþykkt og um það var breið pólitísk samstaða. Við leituðum fanga víða en þó aðallega í Svíþjóð en það land hefur gott orð á sér þegar kemur að opinberum fjármálum, ekki bara ríkisfjármálum heldur opinberum fjármálum yfir það heila. Mér fannst mjög merkilegt þegar ég las fyrsta minnisblaðið frá fjárlaganefndinni á undan okkur sem hafði farið í heimsókn til Svíþjóðar til að skoða þessi mál. Í minnisblaðinu sagði að þar væri pólitísk samstaða um að hafa aga, ráðdeild og ábyrgð í opinberum fjármálum, þvert á alla flokka. Ég skal viðurkenna að auðvitað var þetta bara minnisblað skrifað af starfsmanni nefndarinnar en ég hugsaði með mér: Ég ætla að kanna þetta þegar við förum, þetta getur eiginlega ekki verið svona, þekkjandi umræðu um opinber fjármál á Íslandi um áratugaskeið.

Við fórum síðan til títtnefnds lands og ég notaði tækifærið og spurði alla aðila, bæði þá sem við hittum frá fjölmiðlum og öllum stofnunum, og við hittum mjög marga, og þeir sögðu að það væri nákvæmlega þannig. Það væri algjör samstaða, þvert á alla flokka, um að sýna ábyrgð þegar kæmi að opinberum fjármálum. Það þýddi ekki að allir væru sammála, vinstri mennirnir vildu skattleggja meira, hægri mennirnir vildu hafa einfaldara skattkerfi og hóflegri skattlagningu o.s.frv. En það var þannig að þegar stjórnmálamaður, alveg sama í hvað flokki hann var, mætti á svæðið og lofaði öllu fögru, sem engin innstæða var fyrir, var hann bara blásinn út af. Þetta kom til af því að þeir náðu saman um það, náðu þverpólitískri samstöðu um það eftir að þeir höfðu lent í bankahruni, svolítið á undan okkur, að þeir ætluðu að laga ákveðna hluti og þar með talda þessa.

Ég er sammála hæstv. ráðherra að margt hefur lagast í umræðunni hjá okkur, en ég held samt að kosningabaráttan hafi ekki gefið okkur þá tilfinningu að við séum komin á réttan stað, ef við viljum fara þangað sem uppleggið var með lögunum. Ég held að það væri, eða ég held ekkert um það, það væri til mikils unnið ef við næðum samstöðu um þessi markmið.

Ég var auðvitað mjög sammála og ánægður með þann punkt sem kom frá mínum hæstv. ráðherra og hv. formaður fjárlaganefndar fannst mér mæla vel og á þessum nótum. Svo maður hrósi nú fólki úr öðrum flokkum þá fannst mér sömuleiðis hv. þm. Þorsteinn Víglundsson tala á akkúrat þeim nótum áðan og það er ekki oft gert í þessum sal. Mér finnst okkur bera skylda til að líta á stóru myndina, jafn ósammála og við getum verið í hinum ýmsu málum og eigum að vera það og verðum það áfram. Það er augljóst að við þurfum að vanda okkur mjög mikið núna. Við þekkjum hagstjórnarmistök fyrri ára og áratuga og ég held að ekkert okkar vilji endurtaka þau. Ef við vöndum okkur ekki, virðulegi forseti, mun almenningur finna fyrir því. Og sá sem má minnst finna fyrir því er sá sem minnst hefur. Þeir sem hafa það best þola alveg verðbólgu, það er ekkert vandamál þannig lagað. Þeir geta jafnvel farið með allt sitt til útlanda. En þeir sem eiga allt sitt hér, hvort sem það er húsnæði eða annað, eru launamenn og þeir sem minnst hafa, hafa ekki valkosti. Þess vegna vona ég að umræðan hér og í nefndinni og það sem við gerum taki mið af því að við þurfum að fara varlega.

Þetta er í sjálfu sér ekkert voðalega flókið. Þetta er nákvæmlega eins og þegar kemur að bókhaldi heimilisins eða litla fyrirtækisins eða stóra fyrirtækisins. Það er augljóst að við skuldum t.d. enn þá of mikið. Auðvitað getum við borið okkur saman við önnur Evrópulönd og sagt að við komum afskaplega vel út úr þeim samanburði. Vinir okkar í Evrópusambandinu, við vorum á fundi um daginn með þeim þar sem fulltrúar frá hugveitu federalista komu og kynntu fyrir okkur stöðuna og þeir orðuðu það þannig, með leyfi forseta, svo ég sletti örlítið, að ástandið í Evrópusambandinu væri að „crisis is the new norm“. Ég held ég þurfi ekkert að þýða það. Síðan voru tilgreindir allir þeir þættir og þær ógnir sem stöfuðu af þeirri stöðu sem er uppi núna.

Í glærusýningu frá fjármálaráðuneytinu eru bornar saman skuldir okkar við lönd Evrópusambandsins og við komum sannarlega afskaplega vel út úr því. En inni í þeim tölum eru ekki, hvorki hjá okkur né öðrum, skuldir sem þarf að borga, sem eru lífeyrisskuldbindingar. Ástæðan fyrir því að OECD er ekki með þær inni í skuldum almennt, miðað við þær upplýsingar sem ég hef bestar, er vegna þess að Frakkland, sem ég get ekki betur séð þegar maður skoðar þetta en að standi frammi fyrir óyfirstíganlegum vanda, vill ekki að þær séu inni í samanburðartölunum. Það er hægt að finna skýrslur um þetta, það geta það allir, en það er svolítið dýpra á þeim.

Ég held að allir, talandi um að huga að mögru árunum, komist að þeirri niðurstöðu að það sé algjört forgangsmál að taka niður skuldirnar. Vissulega er það hárrétt líka að endurskoða þarf peningamálastefnuna til að reyna að lækka vexti en mikið af þessu eru erlendir skuldir sem við breytum ekki vaxtastiginu á. Þarna er t.d. 1 milljarður dollara á 5,8% vöxtum og við getum ekki breytt því. Það er lán sem var tekið við mjög erfiðar aðstæður. Það er ýmislegt fleira þarna inni. En stóra einstaka málið er að ef við notum ekki tækifærið núna til að greiða niður skuldir þá munum við lenda í gríðarlegum vanda þegar harðnar í ári. Eitt er alveg öruggt, það mun einhvern tíma harðna í ári.

Menn tala alltaf um ferðamálin eins og þetta hafi fallið af himnum ofan. En það er ekkert náttúrulögmál að ferðamennirnir séu hérna. Það er enginn sem neyðir ferðamenn til að koma til Íslands. Þeir komu hingað að stærstum hluta út af umfjöllun um landið og vegna þess að hér var afskaplega ódýrt af því að krónan féll. Það er allt búið. Það er enn þá nokkur umfjöllun en Ísland er mjög dýrt land. Einhvern tíma hefðum við í þessum sal rætt hvað við mættum gera til þess að styrkja samkeppnisstöðu undirstöðuatvinnuvegar, sem í þessu tilfelli er ferðaþjónustan. En við höfum ekkert rætt það í dag. Ég sakna þess að við ræðum hvort við eigum að reyna að lækka einhver gjöld til þess að styrkja samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar. Ég vek athygli á því að það er ekkert náttúrulögmál að ferðamenn komi hingað og ef þeim finnst landið of dýrt þá fara þeir eitthvert annað. Og ef þeir fara eitthvert annað fáum við ekki tekjurnar af þeim. Það er ekkert flókið í þessu, virðulegi forseti. En nú erum við komin á þann stað að það sem er sérstaklega dýrt er það sem ferðamenn nota mjög mikið, eins og áfengi, bílaleigubílarnir dýrir, bensíngjöldin eru há. Þetta er með því dýrasta sem gerist í Evrópu og Evrópa er mjög dýr. Við erum á sama stað og Noregur og Sviss.

Ég held að það sé ástæða til að gleðjast yfir því að frumjöfnuður, t.d. í samanburði við þau lönd sem við berum okkur mest saman við, kemur mjög vel út. Eitt af því sem er lagt upp með í frumvarpinu, út af lögum um opinber fjármál er, eins og hefur verið bent á og sumir hafa gagnrýnt að vanti, og alveg réttilega vegna þess að við erum ekki komin á réttan stað, að í hverjum einasta málaflokki setji menn sér markmið um hvað þeir vilji gera með viðkomandi málaflokk og mæli hver niðurstaðan er. Okkur vantar mjög mikið til að komast á þann stað að geta rætt þetta út frá þeim forsendum. Hér eru enn þá fullkomlega óskiljanlegar pólitískar umræður um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni þótt allir viti, sérstaklega þeir sem þekkja eitthvað til, að 1/3 af heilbrigðisþjónustu á Íslandi er einkarekinn. Ég held að enginn sé svo geggjaður að vilja hreinsa það, ég vona ekki. Ef menn fara í það skulu þeir bara átta sig á því hvað það þýðir. Menn ganga þá fram og loka SÁÁ, þeir loka Rauða krossinum, þeir loka öllum tannlæknastofum á landinu, öllum sérfræðingum, og svo mætti lengi telja, nokkurn veginn öllum hjúkrunarheimilunum. Er einhver sem í fullri alvöru talar um að gera það eða telur það skynsamlegt eða gott fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda? Það sem við ættum að gera væri að ganga lengra í því að kostnaðargreina þjónustuna til að sjá hvernig við fáum sem besta þjónustu fyrir þá fjármuni sem við setjum í heilbrigðismálin. Það hlýtur að vera aðalatriðið að við sinnum þeirri þjónustu sem þarf að sinna. Sjúklingurinn hlýtur að vera í aðalhlutverki. Ætla menn í fullri alvöru að segja, ef þeir komast að þeirri niðurstöðu, t.d. við einkaaðila eins og SÁÁ sem sinnir þjónustu sinni vel: Heyrðu, það getur vel verið að þetta gangi mjög vel en hérna er um einkarekstur að ræða og við ætlum alls ekki, ekki undir neinum kringumstæðum, að semja um að greiða opinbert fé fyrir þessa þjónustu? Er einhver á þeim stað?

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að við reynum að gera þetta eins vel og mögulegt er á þessum stutta tíma, og ég held að allir vilji það, og reynum að ræða þetta ekki síst út frá þeim hættumerkjum sem eru til staðar. Þau eru í sjálfu sér góð, það er betra að hafa þessi hættumerki en þau merki sem eru uppi í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Hins vegar getur þetta snúist upp í allt aðra stöðu ef við gerum ekki viðeigandi ráðstafanir. Það er ekki bannað þegar kemur að opinberum rekstri — þetta eru peningar almennings, þetta eru peningar skattgreiðenda — að tala um hvernig best sé farið með þá. Það er ekki bannað að tala um hvernig sé hægt að spara. Þetta eru ekki peningarnir okkar sem erum hér inni. Þetta eru peningar fólksins í landinu og við eigum að nálgast það með þeim hætti. Ef við greiðum ekki niður skuldir núna, við þessar aðstæður, hvenær ætla menn þá að gera það?

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að við náum í það minnsta sátt um þessa hluti þó svo að ég geri engar athugasemdir við það, og ég rétt leyfi mér að vona að þannig verði það um alla framtíð, að við tökumst á um það sem við erum ósammála um. Ég hef tekist á við sum ykkar hér inni í áratugi og hlakka til næstu áratuga.