148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Kæru landsmenn. Herra forseti. Forgangsmál landsmanna fyrir síðustu kosningar og þarsíðustu voru heilbrigðismálin. Í stefnuræðunni hér áðan undirstrikar hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir þetta og nefnir heilbrigðismálin fyrst. Í stjórnarsáttmálanum eru heilbrigðismálin jafnframt nefnd fyrst. Þetta er góðs viti.

Það er líka góð vísbending að Vinstri grænum sé alvara í að hafa heilbrigðismál í forgangi að þau taka stól heilbrigðisráðherra, sem er yfirleitt frekar óvinsæll stóll því ráðherrann sem í honum situr verður yfirleitt óvinsæll, [Hlátur í þingsal.] en líka það að skáka hæstv. Svandísi Svavarsdóttur í stólinn, en hún er yfirleitt mjög fær, hún er eiginlega bara alltaf mjög fær í að ná fram vilja sínum. [Hlátur í þingsal.] Þetta gefur mér von.

Ég talaði við forsvarsfólk heilbrigðisstofnana í dag um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Þau sögðu að enn væri óvíst hvort það næði þeim upp fyrir núllið, hvað þá að hefja endurreisn. Lykilatriði núna er að Svandís Svavarsdóttir, hæstv. heilbrigðisráðherra, eigi gott samtal, um hvað vantar til þess að við getum farið að hefja endurreisnina, við það starfsfólk sem er í forsvari fyrir heilbrigðisstofnanir landsins.

Mest áríðandi málaflokkurinn í dag, fyrir samfélagið í heild, fyrir utan heilbrigðismálin, eru kjaramálin. Hækkun á launum ráðamanna langt umfram launaþróun landsmanna á kjördag fyrir ári síðan hefur skapað mikið ósætti á vinnumarkaði og sett í uppnám yfir 70% kjarasamninga. Píratar kölluðu eftir leiðréttingu, við lögðum fram frumvarp um leiðréttingu, eins og Davíð Oddsson gerði á sínum tíma og síðar Halldór Ásgrímsson, já, þeir gerðu það þegar það var smávægileg hækkun. En mál Pírata var svæft í nefnd. Það sem ég gerði að lokum var að finna verkalýðsfélag, VR steig inn og við kærðum saman kjararáð. Og já, ég borga þetta úr eigin vasa, enda er það auðvelt því launahækkunin sem ég fékk sem þingmaður fyrir ári fer í að kæra þá hækkun og fá hana ógilta.

Þessi ríkisstjórn hefur viðurkennt mikilvægi þess að skapa sátt á vinnumarkaði, bæði hæstv. Katrín Jakobsdóttir og hæstv. Bjarni Benediktsson í öllum sínum ræðum og í stjórnarsáttmála viðurkenna þetta. Ég vona innilega að þeim takist að skapa þessa sátt. Það er það sem við þurfum öll. Annars verða massífar deilur á vinnumarkaði, verkföll, og við töpum öll. Nýr forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, er íhaldsmaður. Ég veit að gamla kommúnistanum finnst ekki gaman að heyra það en hann er samt sem áður íhaldsmaður. En yfirlýstur vilji ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að efla Alþingi, styrkja það markvisst, auka áhrif þess og sjálfstæði. Til að uppfylla þannig sáttmála þarf raunverulega að breyta töluvert til, sem íhaldsmönnum finnst yfirleitt erfitt að gera, svo skipun herra Steingríms J. Sigfússonar sem forseta Alþingis vekur spurningar. En gefum honum séns. Sjáum til hvort honum takist þetta ekki. Byrjum kannski á kröfunni um gegnsæi þingstarfanna. Hvernig ætli honum takist þar til? Dæmum menn eftir gjörðum.

Að lokum er það náttúrlega fíllinn á stjórnarheimilinu, hæstv. Sigríður Á. Andersen, vinkona mín, sem áfram situr sem hæstv. dómsmálaráðherra. Með stuðningi hæstv. ráðherra Katrínar Jakobsdóttur og þingmanna VG, enn sem komið er. Sem dómsmálaráðherra braut hún lög við skipun dómara í Landsrétt samkvæmt dómi héraðsdóms í haust. Ef Hæstiréttur staðfestir dóminn eru eflaust fáir sem í alvöru treysta hæstv. Sigríði Á. Andersen til að misnota ekki vald sitt. Ofan á þetta leggst leynimakk hæstv. ráðherrans með upplýsingar vegna uppreistar æru kynferðisbrotamanna.

Við munum beita eftirlitshlutverki okkar sem þingmenn til að rannsaka verklag og ákvarðanir ráðherra í þessum málum. Við Píratar erum á vaktinni. — Takk.