149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:14]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Þingmenn. Landsmenn. Nýtt þing gengur í garð með blikur á lofti. Krónan stundar enn meiri loftfimleika en vanalega, kjaraviðræður færast nær hörku og stærsti atvinnuvegur Íslendinga, ferðaþjónustan, virðist ætla að eiga erfiðara ár en ákjósanlegt væri. Á sama tíma lækkar Ísland á ýmsum mælikvörðum, úr 10. sæti í það 13. í fjölmiðlafrelsi, úr 13. sæti í það 23. í nýsköpun og bein erlend fjárfesting hefur minnkað undanfarin tvö ár.

Hagvöxtur síðustu ára hefur verið illa nýttur. Í stað þess að þróa fjölbreyttara hagkerfi, efla menntun og lífsgæði og reisa Ísland í hæstu hæðir í alþjóðlegum samanburði hefur öll áhersla verið á það að ná sýndarmennskumarkmiðum um lága skuldastöðu ríkissjóðs á kostnað alls annars. Skorturinn á uppbyggingu er núna að koma í bakið á okkur.

Fleiri brýr voru byggðar á Íslandi hamfaraárið 1973 en á öllum síðasta áratug. Við höfum kannski minni þörf fyrir eiginlegar brýr núna, ef þeim ætti að fjölga, en við þurfum heldur betur á hugmyndafræðilegum brúm að halda sem aldrei fyrr. Stóru markmiðin hafa týnst í þrasi og forsendur hagkerfisins standa því völtum fótum enn á ný, áratug eftir hrun. Það er landslag komandi þingvetrar en í því leynast tækifæri til að gera betur.

Á dögunum var eitt merkasta nýsköpunarfyrirtæki landsins selt til Suður-Kóreu sem er viðurkenning á þrotlausri vinnu stofnenda og starfsmanna CCP. Það er mikilvæg innspýting í hagkerfið okkar en um leið áminning um að Ísland er erfiður staður til að reka fyrirtæki. Á árinu hafa nokkur mun minni en engu að síður stórmerkileg nýsköpunarfyrirtæki þurft að hætta starfsemi og önnur berjast í bökkum. Við verðum að hætta að gera sjálfum okkur erfitt fyrir. Háir vextir, háir nefskattar, háir þröskuldar til þátttöku, takmarkandi hugmyndafræði, takmarkandi hugarfar og takmarkandi gjaldmiðill — þetta heldur aftur af okkur.

Það er Alþingis að fjarlægja þessa þröskulda og auðvelda fólki að ná langt. Samrýmast þessir þröskuldar gildum Íslendinga? Á þjóðfundinum 2009 komu fram mörg ágæt gildi Íslendinga, m.a. heiðarleiki, virðing, réttlæti, jafnrétti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni og lýðræði. Það heyrist á stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra að stjórnarfarið sé kannski að þokast nær þessum gildum en það er enn langt í land. Það þarf að brúa bilið milli væntinga og veruleika.

Forseti. Nú er tækifæri til að setja okkur markmið fyrir áratuginn eftir hrunáratuginn. Fyrst og fremst þarf öll markmiðssetning til framtíðar að taka mið af umhverfinu. Bæta þarf skaðann sem við mannfólkið höfum valdið andrúmslofti og lífríki og tryggja að framtíð okkar verði ekki múlbundin óafturkræfum mistökum skammsýninnar. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er á ýmsan hátt ágæt en verkefnið er risavaxið. Þrjár tegundir lífvera deyja út á hverjum degi nú þegar. Loftslagsbreytingar eru á góðri leið með að gera suma parta jarðarinnar óbyggilega. Ábyrgð okkar er gríðarleg.

Einnig er nauðsynlegt að huga vel að alþjóðakerfinu. Forseti Bandaríkjanna er langt kominn með að eyðileggja kerfin sem mannkynið kom sér saman um á síðustu öld til að takast á við sameiginlegar áskoranir. Seta Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna er tækifærið til að leiða heiminn fram á við en það dugar lítið að halda á lofti göfugum markmiðum og mikilvægum um jafnrétti kynjanna og um málefni hinsegin fólks ef Sameinuðu þjóðirnar sjálfar eru að sligast undan ásókn þjóðernislýðskrums.

Alþjóðaviðskipti eiga líka undir högg að sækja. Jafnvel hér í þessum sal er til fólk sem man ekki hvernig lífið var fyrir EES-samninginn og efast um ágæti þess að eiga greiðan aðgang að alþjóðamörkuðum, en íslenskt samfélag er að öllu leyti grundvallað á því að geta átt mikil viðskipti við önnur lönd. Því er nauðsynlegt að verja, styrkja og þróa EES-samninginn, jafnvel þótt einhver lönd kjósi að fórna framtíð sinni á altari einangrunarstefnu.

Framtíðin okkar reiðir sig líka á margt annað, auðlindir, heilbrigði, tækifæri og framfarir. Menntun næstu kynslóða má t.d. ekki byggjast á kreddum um það hvað var heldur þurfum við að laga okkur að heimi þar sem alla mannlega þekkingu er að finna í örsmáum tækjum í vasa hvers og eins en töluverða færni þarf til að nýta þessa tækni til fulls.

Atvinnuvegirnir okkar eru líka að breytast og lífshættirnir með. Aðlögumst. Það var frjálslynt lýðræði sem kom okkur hingað. Það var stórhuga metnaður sem kom okkur hingað en nú þurfum við að sýna enn meiri metnað sem þjóð og byggja stærri og merkilegri brýr til framtíðar.

Kæru landsmenn. Það sjá allir að næstu árin gætu orðið erfið. Stormur vex við sjóndeildarhringinn og í komandi róti þurfum við að finna jafnvægi. Stormar munu koma en við munum þurfa að standa þá af okkur. Þingmál Pírata á þessu þingi endurspegla þetta. Markmiðið er að gera öllum róðurinn léttari, byggja upp, styrkja og bæta.

Hugum að framtíðinni en verjum það sem hefur áunnist. Við munum að sjálfsögðu styðja öll góð mál sem leitast við að ná þessum markmiðum. Þingflokkur Pírata óskar ríkisstjórninni og Alþingi öllu góðs gengis á komandi þingvetri. Við munum eflaust rífast og við munum eflaust takast á en það er allt í lagi. Þótt við tökumst á um aðferðir skal markmið okkar ætíð vera það sama, að vinna að sem bestri niðurstöðu fyrir land og þjóð. Látum átökin því vera heiðarleg og opinská, skoðum hugmyndir hvers annars með opnum hug.

Að sama skapi segi ég við Íslendinga alla: Þingmenn eru hér fyrir ykkur, í ykkar umboði. Minnið okkur á það reglulega og hjálpið okkur að hjálpa ykkur með því að veita okkur góðlátlega leiðsögn eftir þörfum. Það er ekkert annað eftir en að láta hendur standa fram úr ermum og vinna saman að hag þjóðarinnar og reyndar heimsins alls. Samvinna er forsenda velgengni allra. Göngum til verks.