150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Orð og athafnir stjórnvalda minna mig oft á skopmynd sem ég sá fyrir mörgum árum og sýndi mann sem talar af mikilli innlifun yfir konu sinni um jafnréttismál og hvernig honum finnist að konur eigi að fá sömu tækifæri og sömu laun og karlar og klykkir svo út með að segja: Það er bara eitt sem ég skil ekki: Af hverju ertu ekki búin að taka til og elda þegar ég kem heim á kvöldin?

Orð eru því aðeins einhvers virði að þeim fylgi athafnir. Sumir stjórnarliðar tala stundum fallega um að samfélag jafnaðar sé eftirsóknarvert. En hvað eru þau að gera til að vinna gegn ójöfnuði? Hvað gera þau í raun og veru? Fátt eitt, finnst okkur í Samfylkingunni. Það sem blasir við er þetta: Þau gera allt sem þau geta til að verja ríkasta fólkið í landinu á meðan aðhaldskröfur eru gerðar í heilbrigðismálum og öðrum velferðarmálum. Stjórnvöld bregðast þeim sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar og þar á meðal eru fátækustu Íslendingarnir.

Engin krafa er gerð til þeirra efnameiri um að leggja sitt af mörkum í niðursveiflunni. Ísland er samkvæmt nýrri skýrslu frá Oxfam, alþjóðlegum samtökum sem vinna gegn fátækt, langneðst allra Norðurlandanna þegar kemur að aðgerðum til að bregðast við ójöfnuði. Eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstjórnar var að lækka veiðigjöldin með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkissjóð og tekjuauka fyrir stórútgerðina. Auðlindirnar okkar fást fyrir slikk og þeir sem fénýta þær eru í góðum málum en velferðarkerfið líður skort og samgöngukerfið er óboðlegt.

Aukinn jöfnuður er bæði réttlætismál og skynsamleg hagfræði. Jöfn samfélög eru rík samfélög og þar líður fólki almennt betur og er sáttara. Það trúir varla nokkur maður á brauðmolakenninguna lengur en samt starfar ríkisstjórnin í anda hennar. Stjórnarflokkarnir lofuðu bættum kjörum lífeyrisþega fyrir kosningar en lífeyrisgreiðslur eru nú rétt innan við 250.000 kr. á mánuði og allir hljóta að vera sammála um að það eru lök kjör sem þarf að bæta. Einungis þeir sem búa einir ná 300.000 kr. markinu með heimilisuppbót. Um 70% lífeyrisþega sem búa við lökust kjörin eru konur sem voru í hlutastörfum eða heimavinnandi á árum áður. Meðal þeirra eru allra verst staddar konur af erlendum uppruna. Sá hópur kvenna hefur unnið sér inn lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum og þær hafa mjög takmörkuð efni og úrræði sér til framfærslu. Stjórnvöld virðast ekki hafa frétt af þeirra vanda því að við honum er ekki brugðist. Þau leggja hins vegar til að lífeyrisgreiðslur hækki aðeins um 3,5% um áramótin á meðan lægstu laun hækka meira, þ.e. um 5,7%, þremur mánuðum seinna. Bil á milli þeirra fátæku og ríku breikkar vegna aðgerðaleysis stjórnvalda sem segja eitt í ræðum en ákveða annað með fjárlögum.

Góðir landsmenn. Mannkynið þarf að taka höndum saman yfir landamæri til að ná tökum á hamfarahlýnun jarðar. Hlýnunin veldur því að aðgangur opnast að auðlindum með bráðnun íss og opnar um leið tækifæri fyrir þá sem hugsa helst um eigin hag til skemmri tíma. Í þessum málum þurfa íslensk stjórnvöld að fara varlega og binda ekki trúss sitt við þá sem fara fram með blindu og græðgi.

Bandaríkjastjórn hefur sýnt áhuga á að endurnýja ítök sín hér á landi en við eigum að spyrna við fótum gagnvart vopnaskaki og ógn við frið og samvinnu þjóða. Sýnum í verki að við viljum friðsamlegar lausnir þegar öryggi þjóða er ógnað vegna hamfarahlýnunar. — Góðar stundir.