152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:47]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Kæru landsmenn. Ég óska nýrri ríkisstjórn til hamingju með endurnýjuð hjúskaparheit eftir brösótt fjögurra ára hjónaband. Hjónabandið þá var nokkuð óvænt og skapaði skrýtna átakalínu í pólitíkinni sem ég er ekki viss um að verði okkur til góðs til lengri tíma litið. Ráðahagurinn átti að skila risaskrefum í loftslagsmálum, stórátaki í menntamálum, breytingum á stjórnarskrá, auknum jöfnuði, svo ekki sé minnst á orð þáverandi heilbrigðisráðherra sem sagði að þau birtust til þess að bjarga heilbrigðiskerfinu. Öll loforðin kannski hjónabandsins virði ef þau hefðu gengið eftir.

Vinstri græn réttlættu setu sína í þessari ríkisstjórn með nauðsyn þess að einmitt þau stýrðu heilbrigðis- og umhverfisráðuneytunum. En eftir stanslausan ágreining við samstarfsaðila eru ráðherrar þessara málaflokka fluttir hreppaflutningum m.a. í ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar, enda samstiga íhaldsflokkunum þar. Engin fyrirheit um framfarir eða sanngjarnar breytingar. Lítil von um auðlinda- og umhverfisákvæði.

Þetta fjögurra ára ríkisstjórnarsamstarf minnir mig eiginlega mest á matseðil á þokkalegum veitingastað á Tenerife sem sýnir litríkt, ferskt og brakandi salat ásamt kjöti og kartöflum en er nú upplitað og ekkert sérstaklega kræsilegt. Það sem í upphafi virtist hagkvæmnishjónaband ólíkra og ástríðufullra einstaklinga byggir nú á gagnkvæmri virðingu fyrir svipuðum gildum; afturhaldssemi, kjarkleysi og fálæti andspænis ójöfnuði.

Þau lofuðu vissulega líka að tryggja pólitískan stöðugleika og ríkisstjórnin hélt velli. En fólk sem aðhyllist félagslegt réttlæti og frjálslyndi hlýtur að spyrja sig nú: Hvers virði er pólitískur stöðugleiki sem hvílir á varðstöðu um óréttlátan sjávarútveg, efnahagsstjórn fyrir þau ríku, blindu á nauðsyn alþjóðasamvinnu og viljaleysi til að ráðast gegn ójöfnuði?

Ég er þó sammála ríkisstjórninni um mikilvægi þess að ráðast gegn loftslagsógninni og mæta tæknibreytingum en orðum þurfa að fylgja efndir og fjárlagafrumvarpið bendir ekki til þess að það verði gert. Á COP26 ráðstefnunni var áréttað að ríki heims myndu ekki bara setja sér töluleg markmið heldur legðu þau fram skýra aðgerðaáætlun og tryggðu fé til að fylgja henni og það gerir ríkisstjórnin ekki. Það er engin aukning til loftslagsmála og upphæðin sem varið er er jafn há og beinn styrkur til landbúnaðarins.

Herra forseti. Í framtíðinni mun hugvit leika miklu stærra hlutverk í lífi okkar og það er nauðsynlegt að við stígum afgerandi skref varðandi menntun. Það felast stórkostleg tækifæri í nýrri tækni fyrir fámenna þjóð í risastóru landi, fjarri mörkuðum. Með meiri áherslu á hugvit, tækni og verkkunnáttu getum við örvað vöxt í hefðbundnum atvinnugreinum, gert þær vistvænni og greitt götu nýsköpunar. Atvinnulífið verður fjölbreyttara og efnahagurinn síður viðkvæmur fyrir áföllum og Ísland verður álitlegri kostur til búsetu fyrir ungt fólk.

Við þurfum heildarhugsun, yfirsýn og að samþætta allt nám frá vöggu til grafar, hvernig við mætum þörfum nemenda, hvernig við bætum starfsaðstæður kennara og metum störf þeirra. Þess vegna hef ég efasemdir um að dreifa mennta- og menningarmálum á sex ráðuneyti. Þótt háskólanám og menning séu samofin atvinnulífinu á hvorugt að vera á forsendum þess. Háskólanámi er nefnilega líka ætlað að efla gagnrýna hugsun, mannréttindi og lýðræði og listin, auk þess að vera spegill á samtímann, er mikilvæg í sjálfu sér.

Herra forseti. Þá verða risaáskoranir mannkyns aldrei leystar nema í mjög víðtæku alþjóðlegu samstarfi og Íslendingar hafa ævinlega uppskorið ríkulegast þegar samskipti við umheiminn hafa verið sem mest. Hingað berast hugmyndir og straumar og viðskiptatækifæri skapast. Við erum auk þess rík þjóð og okkur ber siðferðileg skylda til að axla ríkari ábyrgð í mjög misskiptum heimi, hvort sem um er að ræða loftslagsmál, fátækt eða vanda fólks á flótta. Það er því metnaðarlaus skammsýni að íhaldsflokkarnir þrír afgreiði helsta tækifæri okkar til alþjóðasamvinnu með stuttri setningu: Hagsmunum Íslendinga er best borgið utan Evrópusambandsins.

En loks eru það verkefnin sem þola enga bið og þar er stjórnarsáttmálinn dapurlegur. Það er hvergi minnst á fátækt og varla á jöfnuð. Þúsundum barna sem búa við skort, tekjulágu fólki, öryrkjum, fátæku eldra fólki er ekki gefin mikil von um bjartari tíma. Engin aukning í húsnæðisuppbyggingu og barnabætur og öryrkjar munu áfram dragast aftur úr launafólki.

Stjórnvöld hafa nefnilega ríku hlutverki að gegna þegar kemur að baráttunni gegn ójöfnuði. Réttlátt skattkerfi, félagslegt húsnæði, barnabætur og öflugar almannatryggingar skipta máli. Þetta ætti ríkisstjórnin að hafa í huga nú andspænis komandi kjaraviðræðum.

Nú líður að jólum, herra forseti, og eflaust finnst einhverjum hérna klisjukennt að draga upp svipmynd af fólki sem raðar villibráð og konfekti áhyggjulaust ofan í innkaupakörfur á sama tíma og annað fólk norpar í biðröð eftir bita af hamborgarahrygg og dós af grænum baunum hjá hjálparstofnunum. En, kæru landsmenn, svona er nú staðan enn þá á Íslandi.