152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:00]
Horfa

ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við fögnum fullveldisafmælinu í dag og getum verið stolt af því hversu langt Ísland hefur náð á þessum rúmum 100 árum. Einnig er degi tónlistar fagnað í dag. Engin orð fanga mikilvægi íslenskrar tónlistar, bæði fyrir sjálfsmynd og menningu þjóðarinnar. Í henni er einhver ólýsanlegur strengur sem höfðar ekki bara til okkar sjálfra heldur tónlistarunnenda um allan heim. Íslenskt tónlistarfólk hefur náð ótrúlegum árangri á fjölmörgum sviðum tónlistar og fyrir vikið er tónlist orðin ein af okkar mikilvægustu útflutningsgreinum.

Í kvöld langar mig til að fjalla um menningu, listir og ferðaþjónustu og hvernig ég tel að það sé einstakt tækifæri fólgið í hinu nýja ráðuneyti menningar og viðskipta, en hátt í 30.000 manns starfa við menningu, skapandi greinar og ferðaþjónustu og búa til gríðarleg útflutningsverðmæti.

Virðulegur forseti. Þjóðir heims hafa mismikil áhrif á söguna og leið þjóða á borð við Ísland er í gegnum hið mjúka vald, þ.e. að hafa áhrif í gegnum menningu og listir. Ljóst er að íslenskt listafólk hefur verið okkar bestu sendiherrar. Hildur Guðnadóttir, Ragnar Kjartansson, Erna Ómarsdóttir, Laufey Lín, Björk, Friðrik Þór og Arnaldur. Indriðason eru dæmi um slíka sendiherra. Því var það löngu tímabært að þjóðin eignaðist ráðuneyti sem beinir meira sjónum að menningu, listum og skapandi greinum en hingað til ásamt því að hlúa vel að ferðaþjónustu. Stór þáttur í aðdráttarafli Íslands er fólginn í sterku lista- og menningarlífi og brýnt er að hlúa að íslenskri frumsköpun.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar gefur góð fyrirheit um að umgjörð menningar og lista verði studd enn frekar og langar mig að nefna nokkrar aðgerðir í þeim efnum. Kvikmyndagerð er mikilvæg íslensku atvinnu- og menningarlífi. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis verður styrkt og við ætlum að hækka endurgreiðslur til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi.

Tónlistarmiðstöð verður sett á laggirnar og verður ein af hornsteinum íslensks tónlistarlífs. Það er grundvallaratriði að styðja betur við tónlistina á Íslandi. Þess má geta að virði umfjöllunar um íslenska tónlist á alþjóðavettvangi nam um 7 milljörðum kr. árið 2020.

Myndlistarstefna verður kláruð á næsta ári og verður hrint í framkvæmd á kjörtímabilinu. Það er tímabært að myndlistin njóti aukins vægis í takt við aðrar listgreinar. Íslenskt myndlistarlíf er einkar framsækið og hefur hlotið lof og viðurkenningar erlendis og því verðum við að gera betur þar. Samtímamyndlist á endalaust erindi. Segja má að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé býsna heit fyrir myndlistinni þar sem fyrsta ríkisstjórnin var kynnt á Listasafni Íslands og sú síðari á Kjarvalsstöðum.

Góðir landsmenn. Bókaþjóðin stendur undir nafni en útgefnum bókum hefur fjölgað um 36% á síðustu fjórum árum. Opinber stuðningur við útgáfu bóka hefur aukið úrvalið fyrir lesendur á öllum aldri. Þessi stuðningur er liður í fjölþættum aðgerðum stjórnvalda til að efla íslenskuna og bæta læsi. Við megum ekki gleyma því að handritin voru ein af fyrstu útflutningsafurðum íslensku þjóðarinnar á 14. öld og er ég sannfærð um að Snorri Sturluson væri bara býsna ánægður með stöðu mála.

Við ætlum að gera betur í hönnun. Íslenskir hönnuðir eru í fremstu röð og ég hvet einstaklinga og fyrirtæki til að huga að því alla daga að hafa íslenska hönnun í sínu umhverfi. Því var það sérstakt ánægjuefni þegar forseti Íslands ákvað að íslensk hönnun myndi prýða Bessastaði.

Ný sviðslistamiðstöð mun hefja störf á nýju ári og verður mjög mikilvæg fyrir sviðslistir í landinu. Hún mun koma til með að styðja við greinina og koma henni enn betur á framfæri hérlendis og erlendis. Að auki verður stutt betur við starfslauna- og verkefnasjóði listamanna.

Góðir landsmenn. Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu.

Í lokin langar mig til að vitna í ræðu sem Pétur Gunnarsson rithöfundur flutti á 80 ára afmæli Bandalags íslenskra listamanna, en þar rifjaði hann upp að BÍL hafi verið stofnað á tíu ára afmæli fullveldisins og frumherjar BÍL voru þess fullvissir að án blómlegrar menningar væri fullveldið orðin tóm. Hugmyndasmiðurinn að stofnun BÍL, Jón Leifs tónskáld, líkti því við landvarnir og sagði að ef stjórnvöld veittu þótt ekki væri nema broti af því sem aðrar þjóðir kostuðu til landvarna væri björninn unninn. Og einn úr hópi þeirra, Halldór Laxness, komst svo að orði: Gildi þjóðar fer eftir menningu hennar.

Þess vegna leggur ríkisstjórnin sérstaka áherslu á hugvit til framtíðar.

Kæru landsmenn. Það eru spennandi tímar fram undan þar sem fjölmörg tækifæri blasa við hugrakkri þjóð. — Góðar stundir.