152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:12]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Leiðarstef ríkisstjórnarsáttmálans er endurunnið efni frá síðasta kjörtímabili. Það eina sem breytist er bréfsefni ráðuneyta. Á 60 blaðsíðum má lesa fögur fyrirheit um vöxt til meiri velsældar, um jarðveg tækifæra og loftslagið. Þessar áherslur komu einnig fram í ræðu hjá hæstv. forsætisráðherra fyrr í kvöld en minna fór fyrir stefnumótun í heilbrigðismálum, málefni sem snertir alla íbúa landsins.

Vissulega talaði hæstv. forsætisráðherra um jafnt aðgengi að þjónustu, að mikilvægt væri að draga úr kostnaði fólks vegna hennar. Þetta höfum við öll heyrt áður. Ég vil í þessu sambandi minna á þingsályktunartillögu sem ég flutti um gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir. Hún var samþykkt og heilbrigðisráðherra var falið að lágmarka kostnað sjúklinga vegna langvinnra og lífshættulegra sjúkdóma. Ég hef enn ekki orðið vör við að nokkur breyting hafi orðið á kostnaðarþátttöku fólks, þvert á móti.

Forseti. Um leið og ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum vil ég benda á að auka þarf farsæld allra. Hverjum er frjálst að búa þar sem hann vill, það eru mannréttindi. Því miður virðist ólíklegt að breyting verði á núverandi ástandi enda er engin stefnubreyting kynnt til sögunnar. Enn þarf fólk að ferðast um langan veg til að sækja sér nauðsynlega þjónustu. Ekki er að sjá að koma eigi til móts við þá sem þurfa um þennan langa veg að fara. Það er stórundarlegt að ekki sé hugað að því að Sjúkrahúsið á Akureyri verði jafnsett sjúkrahúsinu í Reykjavík. Svar ríkisstjórnarinnar er að innleiða fjarheilbrigðisþjónustu til að friða fólkið úti á landi svo hægt sé að segja að verið sé að veita öllum sömu þjónustu. Þannig er þessum íbúum landsins mismunað.

Miðflokkurinn mun áfram hafa það á stefnuskrá sinni að tryggja öllum Íslendingum jafnt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu. Í því sambandi vil ég minna á eitt af stefnumálum okkar um heilbrigðisskimanir, sem er liður í því að hverfa frá einstefnu ríkisstjórnarinnar, og að þjónusta verði færð nær almenningi. Heilbrigðiskerfið þarfnast endurskoðunar til að tryggja sem besta nýtingu fjármagns, með það að markmiði að hámarka þjónustu. Ríkið þarf að nýta þjónustu þeirra sem eru best til þess fallnir og nýta jafnframt krafta samtaka og sjálfstæðra félaga sem skipta sköpum og bæta lýðheilsu.

Með því að ganga markvisst til verka má eyða biðlistum, fjölga hjúkrunar- og þjónusturýmum og efla heimaþjónustu. Það sem þarf er skýr pólitísk stefnumótun, stefnumótun og kjarkur, þor til að breyta kerfinu. Kerfum er ætlað að skapa ramma um samfélagið. Þau þurfa að taka breytingum með samfélaginu. Þau eiga að laga sig að þörfum þess og landsmönnum öllum. Því miður virðist hvort tveggja skorta hjá þessari ríkisstjórn. Áfram verða sjúklingar fluttir á milli landshluta, eða réttara sagt á Landspítalann í Reykjavík. Kerfið mun því áfram þjóna best sjálfu sér og það er röng hugsun.

Heilbrigðismál eiga að vera í forgangi. Heilbrigðiskerfið á að vera fyrir fólkið sem á því þarf að halda og ríkisstjórnin þarf að þora að breyta kerfinu. Aðeins með slíkri hugsun felast raunveruleg fyrirheit um vöxt, velsæld og tækifæri.

Kæru landsmenn. Njótið aðventunnar.