143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:36]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Hv. þingmenn og þið öll sem heima sitjið. Í gær, á fyrsta degi nýs þings, hófst meistaramánuðurinn svokallaði. Með honum er fólk hvatt til þess að setja sér markmið, til þess að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið við stjórnun landsins næstu fjögur árin. Markmiðin endurspegla kannski best málamiðlun þessara tveggja flokka í ríkisstjórn en þau stefna ekki að bestu útgáfunni af íslensku samfélagi. Þau eru hvorki nægilega róttæk né hugrökk. Þegar talað er um hagvöxt á Íslandi, eins og t.d. hæstv. forsætisráðherra gerði í ræðu hér áðan, þarf að gefa gaum þeim heimi sem hann vex í.

Hér á Íslandi lifum við öll undir eins konar ósýnilegri hvelfingu gjaldeyrishafta. Einhver ákveður að byggja sér hús undir þessari hvelfingu. Sá hinn sami ræður sér smið, rafvirkja og fleira gott fólk, til þess að byggja húsið. Þetta fólk býr líka undir hvelfingunni og má segja að þar sé allt bara í lukkunnar velstandi. Þar er kaupmáttur, hagvöxtur og hvaðeina. En þar er hagvöxtur því að það sleppur ekkert út úr þessari gerviveröld. Heimurinn sem við lifum í heftir frelsi okkar og tækifæri en þessar furðulegu aðstæður mega ekki verða forsendur okkar við markmiðasetningu. Það þekkir það hver íþróttamaður að maður setur sér ekki markmið með vörn í huga heldur eftir því hvernig hann ætlar að sækja fram. Hvaða heim ætlum við að skapa okkur í þeirri sókn?

Ég veit að hverju við hjá Bjartri framtíð viljum stefna. Við viljum markmið um fjölbreytt atvinnulíf sem er frjálst og getur stuðst við mynt sem er eftirsótt. Skapandi greinar, rannsóknar- og hugverkaiðnaður er ekki bundinn jafn miklum náttúrulegum takmörkunum og til að mynda álframleiðsla, landbúnaður og sjávarútvegur. Þær skapa þegar mjög miklar tekjur fyrir íslenskt þjóðarbú en við getum gert mun betur ef við ákveðum að stefna að því. Ég vil sjá markmið um stöðugleika í íslenskum sjávarútvegi. Um leið og fundinn er farsæll farvegur varðandi sanngjarna skiptingu á þjóðararði í sjávarútvegi þarf að skapa þar umhverfi og sátt sem heldur til lengri tíma. Það veltur mjög margt á því. Við getum ekki boðið fólki í sjávarútvegi upp á rekstrarumhverfi sem miðast við skammtímaáætlanir og óvissu um morgundaginn. Það leiðir af sér óhagræði í rekstri og minni arð en ella til þjóðarinnar.

Ég vil sjá stefnu í nýtingu orkuauðlinda. Í sátt við umhverfi og náttúru eigum við að mynda okkur stefnu um hvernig við hámörkum hagnað af orkuauðlindum okkar fyrir þjóðina. Stjórnvöld og hæstv. iðnaðarráðherra verða að hætta að ganga erinda erlendra álfyrirtækja sem vilja borga smáræði fyrir orkuna. Það á að standa með íslenskum orkufyrirtækjum og við stjórnmálamenn höfum það hlutverk að vera varðhundar arðsins af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Það er vondur kostur að bjóða Suðurnesjum upp á einhæfa, ófjölskylduvæna atvinnumöguleika í álveri sem þjóðin borgar með á endanum í gegnum ívilnanir og raforkuverð sem er alltaf á útsölu.

Það eru önnur tækifæri sem vert er að skoða. Eitt dæmi er sala á raforku í gegnum sæstreng til Evrópu. Mörgum spurningum er þar enn ósvarað og þar er mikilvægt að kanna jarðveginn vel. Það bendir hins vegar margt til þess að með honum megi fá meira en sex sinnum hærra verð fyrir megavattstundina en nú er verið að selja til stóriðju.

Herra forseti. Ég vil ekki almennar skuldaniðurfellingar. Margt hefur verið gert. Enn eru einhverjir hópar sem þurfa sannarlega að fá hjálp við úrlausn sinna skuldamála en sá Hrói höttur sem kynntur hefur verið til leiks er því miður hér með öfugum formerkjum. Seðlabankinn hefur nú þegar komist að þeirri niðurstöðu og birt í skýrslu að almenn skuldaniðurfelling á húsnæðislánum hjálpi þeim mest sem skulda mest en það eru líka þeir sömu og eiga mest. Það er ekki endilega það fólk sem á í greiðsluerfiðleikum um hver mánaðamót. Það er líka lítill hluti fólks á landsbyggðinni því að þar hefur skuldsetning verið minni.

Ef eitthvert svigrúm myndast þegar samið verður við kröfuhafa er skynsamlegt og réttlátast að láta alla njóta jafnt því að allir sem lifa hér og hrærast hafa sannarlega orðið fyrir forsendubresti. Þetta er best gert með því að lækka skuldir ríkissjóðs og þar með vaxtakostnaðinn, sem eru ósanngjarnar byrðar, sérstaklega á ungt fólk og komandi kynslóðir.

Ég vil markmið um nýjan Landspítala. Góð heilbrigðisþjónusta krefst flókinna og kostnaðarsamra tækja, ákveðinnar aðstöðu og fyrirkomulags. Við getum ákveðið að leggja ekki áherslu á það í heilbrigðiskerfinu en þá verðum við líka að átta okkur á því að með því ákveðum við að færa möguleika læknisfræðinnar aftur til fortíðar. Við minnkum öryggi sjúklinga og lífslíkur. Endurbættur og að hluta til nýr Landspítali er lífsnauðsynlegur. Hann er á engan hátt þrándur í götu heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni eða eflingu á heilsugæslu, hann er þvert á móti mikilvægur hlekkur í keðju sem myndar öflugt og heildrænt heilbrigðiskerfi.

Ágæta ríkisstjórn. Ég hvet ykkur til að setja markið hærra. Þið eruð fulltrúar um helmings kjósenda sem treystir ykkur til góðra verka. Minni hlutinn á þinginu er fulltrúi hins helmingsins. Ég hvet ykkur því líka til að sýna í verki að þið virðið þann hluta þjóðarinnar og að þið séuð tilbúin til samráðs og samvinnu til þess að huga að sjónarmiðum allra þeirra sem þið þjónið með störfum ykkar í ríkisstjórn. — Góðar stundir.