146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsögu hans fyrir fjárlagafrumvarpi sem vissulega er sett hér fram undir óvenjulegum kringumstæðum. Hæstv. ráðherra kom að því undir lok ræðu sinnar sem er kannski stærsta áhyggjuefni okkar hér í þessum sal, en það eru þau merki sem eru um vaxandi þenslu í hagkerfinu á sama tíma og við horfumst í augu við að það er veruleg uppsöfnuð þörf á auknum framlögum til rekstrar og þörf á opinberri fjárfestingu. Eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega er hún með allra lægsta móti. Við þurfum líka að horfa til þess að hér var fyrir nokkrum vikum samþykkt samgönguáætlun sem ekki er fjármögnuð í fjárlagafrumvarpinu og hæstv. ráðherra hefur sagt að þingið verði að takast á við það. Við áttum okkur hins vegar á því, sem hér erum, að við þurfum að fara varlega einmitt út af þenslumerkjunum sem við er að eiga.

Telur hæstv. ráðherra til að mynda að skynsamlegt sé að standa við þá skattalækkun sem verður fullnustuð með fækkun þrepa í þessum fjárlögum og í þeim tekjubandormi (Forseti hringir.) sem honum fylgir? Eða hefði hugsanlega verið skynsamlegt að fresta þeirri lækkun?