146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að upplifa eins og ég vék að í framsöguræðu minni mjög góð ár, fjárfesting vex gríðarlega ár eftir ár, einkaneyslan er að taka mjög við sér. Það mælist tiltölulega lág verðbólga á Íslandi, fyrst og fremst vegna þess að gengi krónunnar hefur verið að styrkjast svo mikið. Þessi þenslumerki og þau sem ég vék að í máli mínu hafa verið meginröksemdin fyrir því vaxtastigi sem Seðlabankinn hefur haldið undanfarin misseri.

Ég er hins vegar alveg sannfærður um að ef opinberir aðilar sýna aga í fjármálastjórn sinni og ef okkur tekst að fá nýjan ramma um vinnumarkaðinn þannig að kjarasamningar færist nær því að vera útdeiling á þeirri framleiðniaukningu sem er að verða hverju sinni, því svigrúmi sem er til staðar hverju sinni, höfum við skapað forsendur fyrir verulegri lækkun vaxta og stöðugri verðbólgu á Íslandi.