146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar að aðstæður kalli á skattahækkanir. Skattar eru nú þegar háir á Íslandi og þær aðstæður sem við búum við eru einfaldlega kjöraðstæður á svo mörgum sviðum. Ég held að Alþingi Íslendinga sé öfundað af þjóðþingum aðildarríkja Evrópusambandsins um alla Evrópu, ég tala nú ekki um Suður-Evrópuríkin sem eru að reyna að skrapa saman í jöfnuð í ríkisfjármálum. Flest þeirra eru með mikinn halla.

Seðlabankinn hefur kallað eftir því að menn sýni aðhald. Það er akkúrat einn meginþráðurinn í málflutningi mínum. Varðandi loforð um að halda áfram að byggja upp tel ég að við stöndum ágætlega við þau í þessu fjárlagafrumvarpi. Eins og ég hef oft sagt má auðvitað halda því fram að gera þurfi betur. Ég tel að þetta þing muni ákveða á nokkrum sviðum að gera meira. Ég hef nefnt greiðsluþátttökuna, ég hef nefnt einstaka fjárfestingarverkefni; það má meðal annars horfa til Dýrafjarðarganga eða Vestmannaeyjaferju o.s.frv. En ég lofaði hins vegar aldrei besta heilbrigðiskerfi í heimi, eins og hv. þingmaður.