146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við erum reyndar ekki langt frá því að vera með besta heilbrigðiskerfi í heimi, en það þarf að leggja örlítið meira til svo það megi verða. Við þekkjum það, Íslendingar, að fara í gegnum sveiflur. Allt of oft hefur það gerst að á sama tíma eru skattar lækkaðir og farið í fjárfestingar og aukin útgjöld.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Þegar hann horfir á innviði landsins þar sem allir kvarta, það er neyðarástand í heilbrigðiskerfinu, vegirnir molna nánast undan okkur og skólakerfið er í vanda, getur hugsast að skattalækkanir, eins og lækkun á veiðigjöldum, lækkun á orkuskatti, auðlegðarskatti og jöfnunarhlutverki tekjuskattskerfisins, svo eitthvað sé nefnt af þeim breytingum sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili, hafi verið hagstjórnarleg mistök þegar horft er til innviðanna sem eru veikir og alls staðar er kallað á uppbyggingu?