152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Gott kvöld og gleðilegan fullveldisdag. Velkomin í þennan sal lýðræðis á Íslandi þar sem við höfum starfað sem sjálfstætt þjóðþing í rúm 100 ár eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um fullveldi árið 1918. Síðustu tvær vikurnar hafa verið farsakenndar. Í tvo mánuði höfum við fylgst með hópi þingmanna afhjúpa lögbrot, trassaskap og stórkostlega vanvirðingu við lýðræðið. Framkvæmd síðustu kosninga var forkastanleg og okkur gafst tækifæri til að senda skýr skilaboð um að ruglið í Norðvesturkjördæmi ætti aldrei að endurtaka sig. En það voru ekki skilaboðin sem Alþingi ákvað að senda. Þvert á móti ákváðu flest í þessum sal að staðfesta niðurstöðu sem enginn veit hvort er rétt eða ekki. Getur annars einhver í þessum sal sagt með fullri vissu hvernig atkvæðin skiptust í Norðvesturkjördæmi og hvort vilji kjósenda hafi í raun og veru náð fram að ganga? Nei, það getið þið ekki. Það getur það enginn. Alþingi féll á fyrsta prófinu og það mun starfa í skugga efasemda um lögmæti sitt allt kjörtímabilið. Þetta er farsi og ábyrgð Alþingis er mikil.

Á sama tíma og allir aðrir horfðu forviða á sápuþáttaröðina Brasað í Borgarnesi lokuðu leiðtogar ríkisstjórnarinnar sig af. Í margar vikur pukruðust þau saman í ráðherrabústaðnum og leituðu allra leiða til að halda löskuðu hjónabandinu gangandi fyrir börnin. Niðurstaðan úr leynimakki þeirra leit dagsins ljós á sunnudag: Ellefu blaðsíðna stjórnarsáttmáli sem var teygður í 60 síður til að fela hversu innihaldslaus sáttmálinn er. Þau vilja stuðla að, móta stefnu um, horfa til, styðja við og endurskoða. Allt þokukennd og óskýr loforð sem fela ekki í sér neinar skuldbindingar. Var ekki hægt að gera betur eftir fjögurra ára samband og tveggja mánaða hjónabandsráðgjöf en að búa til samstarf sem spannar litróf stjórnmálanna til að skapa jafnvægi? Hvar er framtíðarsýnin? Þau ætla sér ekki að taka forystu í loftslagsmálum þrátt fyrir að við höfum alla burði til þess. Þau ætla sér ekki að gera auðlindir landsins að þjóðareign þrátt fyrir skýra niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau ætla sér ekki einu sinni að styrkja stoðir lýðræðis þrátt fyrir farsa síðustu vikna heldur setja bara enn og aftur einhverja sérfræðinga í að skoða afmarkaða kafla stjórnarskrárinnar. Enn og aftur þarf að minna á að það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Það er svo sem viðbúið hjá þessari ríkisstjórn sem virðist hafa valdasetu sem sjálfstætt markmið.

Kæra lýðræði. Fyrir kosningarnar var ekki þverfótað fyrir loforðum um að málefnin réðu för. En ef málefnin hefðu í alvöru ráðið för í þessu ríkisstjórnarsamstarfi þá hefði það aldrei orðið að veruleika. Það er augljóst við lestur stjórnarsáttmálans hvað stjórnarflokkarnir eru klofnir í mörgum málum. En í rauninni má kannski hrósa þeim fyrir að gera út um klofninginn á prenti og boða til blaðamannafundar til að kynna hann. Mjög spes. En þessi sáttmáli boðar algjöra uppgjöf í kringum stóru málaflokkana sem þau náðu ekki saman um á síðasta kjörtímabili. Stjórnarskráin, hálendisþjóðgarður, húsnæðisvandinn, efling Alþingis og traust á stjórnmálum er ekki á dagskrá. Í staðinn á að botnvirkja landið og einkavæða innviði og grunnþjónustu.

Í sjálfskipaðri sóttkví frá kosningaklúðrinu hleyptu leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna engum öðrum að umræðunum sem snerust einungis um eitt mál, hvernig Vinstri græn gætu haldið forsætisráðherrastóli. Baráttan fyrir umhverfinu fór til Sjálfstæðisflokksins, sem fékk falleinkunn frá Ungum umhverfissinnum, og lýðræðið má bara fara í hundana. Hjá þeim eru það ekki málefnin sem ráða för heldur hverjir stjórna. Kjósendur VG fá því loksins að horfa upp á helstu kosningamál Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins verða að veruleika undir verkstjórn þeirra eigin forsætisráðherra. Það tók tvo mánuði að ná þeirri niðurstöðu. Allt annað skiptir greinilega ekki máli eins og nýr ráðherra sagði á mánudaginn: Stjórnsýslan fékk mjög stuttan aðlögunartíma fyrir daginn í dag en við munum taka næstu vikur í að fínpússa hvað á heima í ráðuneytinu.

Afsakið, en það er sem sagt verið að segja að þingið hafi verið í lamasessi í næstum því hálft ár og við þurfum að bíða enn þá lengur eftir því að ráðherrarnir fatti hvað þeir eiga að gera í vinnunni.

Kæru kjósendur. Lýðræðið deyr ekki á einni nóttu. Dauði þess er hægur og birtist okkur í skeytingarleysi, tómlæti og vanrækslu gagnvart leikreglum lýðræðisins. En við Píratar gefumst ekki upp, eins og Al Smith sagði: Alla galla lýðræðis má laga með meira lýðræði.

Það þýðir að við sýnum því virðingu að það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Það þýðir að við sýnum því virðingu að það er lýðræðið sem nýtur vafans. Yfir til þín. Gleðilegan fullveldisdag.