154. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2023.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Kæra þjóð. Þetta er í sjöunda sinn sem mér hlotnast sá heiður að vera hér í ræðu við stefnuræðu forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur, í sjöunda sinn sem hún flytur stefnuræðu fyrir okkur, kæru landsmenn og þingmenn og allir hinir.

Nú segir hæstv. forsætisráðherra að það séu góðar horfur fram undan og það sé ánægjulegt að vita til þess að fátækt hafi verið að minnka á Íslandi. Er það nema furða að hlutirnir séu eins og þeir eru þegar sjálfur forsætisráðherrann og ríkisstjórn hennar voga sér að koma hér upp og segja það blákalt upp í opið geðið á vaxandi fátækt á Íslandi að hún sé að minnka? Síðast í dag var Hjálparstofnun kirkjunnar að koma með skýrslu sem bendir til þess alla leið — alla leið — að það eina sem þau hafi séð sé vaxandi fátækt, vaxandi neyðaróp á hjálp. En hér sitja þessir háu herrar og frúr, hér situr ríkisstjórn auðvaldsins blind á báðum augum. Og ég hélt að ég væri sjónlausi þingmaðurinn. En hvað um það.

Á þessum sama degi, 13. september 2017, rétt áður en þáverandi ríkisstjórn sprakk í loft upp með tilheyrandi hvelli, þá stóð hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir hér full af orku og hugsjón, að því er virtist, fyrir baráttunni gegn fátækt. Það sem hún sagði hér blákalt, berum orðum, var að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu væri það sama og að neita því um réttlæti. En þetta fólk er enn að bíða eftir réttlætinu sex árum síðar. Á þeim tíma sem þessi sami ágæti þingmaður, nú hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, er búinn að vera með stýri skútunnar í fanginu hefur fátækt ekki bara vaxið, það er gegnumgangandi, heldur hafa komið fram skýrslur sem sýna að fátækt íslenskra barna hefur aukist um heil 44% á síðustu sex árum. Ég get líka sagt eins og hv. þm. Kristrún Frostadóttir, að það myndi sennilega vera skárra hér á landi ef ég væri að stýra þessari skútu, ef Flokkur fólksins, sem eingöngu var stofnaður til að berjast gegn óréttlæti og fátækt, hefði fengið tækifæri til að stýra þessari skútu.

En ég er ekki hér til að biðja um völd. Ég er hér til að biðja þá sem stjórna að standa við stóru orðin. Að koma hér skipti eftir skipti með fagurgala fullan af engu — við erum löngu búin að fá nóg af því. Í þessari skýrslu núna frá Hjálparstofnun kirkjunnar, hvaða þjóðfélagshópur er það sem gegnumgangandi kemst aldrei út úr fátæktargildrunni, sem er þar fastur? Það eru öryrkjar. Öryrkjar eru fastir í fátækt. Þeir hafa ekki einu sinni tækifæri til að hjálpa sér sjálfir. Og þessi hæstv. ríkisstjórn — það er sama þótt Flokkur fólksins komi hér ár eftir ár með úrræði til að gefa þessu fólki tækifæri á því að hjálpa sér sjálft, það er þurrkað út af borðinu. En nú á að gera allt fyrir öryrkja, nú á nefnilega að slengja á þau svokölluðu starfsgetumati. Það á að vera lausnin. Hvers vegna í ósköpunum höfum við ekki gefið þessu fólki von? Þetta eru yfir 20.000 einstaklingar á landinu í dag. Hvers vegna höfum við ekki gefið þeim von? Hvers vegna erum við ekki þau sem hjálpa fólki til sjálfshjálpar? Ég veit ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn sé sá flokkur sem hefur gumað mest af því og sagt að við eigum að reyna að gera allt til að efla einstaklinginn til dáða. En það er svo sannarlega ekki hægt að segja það í dag, svo sannarlega ekki.

Ég hef verið sex ár á þingi og er núna í sjöunda skiptið að flytja hér ræðu við stefnuræðu forsætisráðherra og ég verð að segja það að til að byrja með þá trúði ég því virkilega að hér væru góðir hlutir að gerast þótt þeir gerðust hægt. En hér gerast litlir sem engir hlutir og þeir gerast meira en hægt, þeir gerast bara alls ekki neitt. Enn þá er fátækt fólk að bíða og bíða og bíða eftir réttlætinu og fátækt er að vaxa í landinu. Það er alveg sama hvaða silkihúfa kemur og segir eitthvað annað, það er rangt. Allar hjálparstofnanir eru að tala um það hversu ofboðslega mikil ánauðin er orðin úti í samfélaginu. Það að við skulum vera hér, kjörnir fulltrúar, 63 einstaklingar sem þjóðin treystir til að ala önn fyrir henni, er til skammar. Ég segi ekki annað en það. Það er frumskylda okkar að hjálpa þegnunum. Það er frumskylda okkar að taka utan um alla og gefa þeim kost á að lifa í samfélaginu með reisn, hvort sem það eru ungir eða aldnir.

Ég segi bara: Kæra þjóð. Ég vildi óska þess að ég væri einráð í dag, þá væru hlutirnir betri. Svo mikið er alveg víst.