131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:41]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í lok umræðunnar sem er orðin býsna löng og ekkert nema gott um það að segja. Það er ánægjulegt að hv. þm. hafa mikinn áhuga á byggðamálum. Það eru svo sem ekki ný tíðindi. Ég bið hv. þm. að hafa skilning á því að þó svo byggðamál heyri undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið fer ég ekki með alla þá málaflokka sem varða landsbyggðina, því í raun varða flestir málaflokkar landsbyggðina að einhverju leyti, sérstaklega sjávarútvegsmál og samgöngumál. Það eru aðrir ráðherrar sem fara með þá málaflokka þannig að ég tel ekki ástæðu til að fara mikið inn í þá, með virðingu fyrir kollegum mínum. Engu að síður er nóg um að tala og mjög margt sem fram hefur komið í umræðunni sem á fullan rétt á sér og annað á minni rétt á sér að mínu mati, eins og gengur, en það er bara eins og pólitíkin er.

Af því að hér eru hv. þm. sem töluðu í lokin vil ég bregðast við örfáum atriðum sem þeir komu inn á, t.d. í sambandi við rafmagnsverðið. Við erum að fara inn í nýtt kerfi þar eins og allir vita. Ríkisvaldið mun ekki stjórna því hvaða verðlagning verður viðhöfð, að öðru leyti en því að Orkustofnun gefur út verðskrá hvað varðar sérleyfisþættina og síðan gerist annað á markaðnum. Það sem ég tel að muni koma í ljós eftir að breytingin hefur átt sér stað er að landsbyggðin muni búa frekar við lægra verð en áður vegna þess að Rarik verður ekki lengur skyldað til þess að standa undir þeim félagslega kostnaði sem er í kerfinu, en þetta á allt eftir að sýna sig betur. Eins má segja að Hitaveita Suðurnesja mun taka meiri þátt í flutningskerfinu almennt eftir breytinguna.

Það mátti skilja á máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar í sambandi við Byggðastofnun að ég hefði vald yfir þeirri stofnun þannig að ég stjórnaði þar daglegum rekstri. Það er ekki þannig. Það er stjórn fyrir stofnuninni sem fer með daglegan rekstur og stofnunin heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Svo er líka rétt að nefna það að stofnunin þarf að lúta lögum á bankamarkaði sem gerir það að verkum að mjög þröngar skorður eru settar við það sem bæði ráðherra og stjórnarmenn mega hafa afskipti af einir og sér. Það eru stjórnarfundirnir sem ráða ríkjum.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson var mikið í sjávarútvegsmálunum eins og oft áður. Ég þekki þau sjónarmið sem hann kynnti ákaflega vel, en engu að síður vil ég halda því til haga að sjávarútvegsmálin eru í raun ekki málaflokkur sem ég ber ábyrgð á, en hef þó stutt þá stefnu sem uppi hefur verið í þeim málaflokki og er ekki áhugasöm um að hlaupa frá því og ber þar mikla ábyrgð eins og aðrir stjórnarsinnar. Við höfum talið að það væri mikils virði þegar á heildina er litið að viðhalda kvótakerfinu.

Ég vil segja það í lokin að ég var í þessari viku á fundi norrænna byggðamálaráðherra í Stokkhólmi. Þá áttaði maður sig betur á því en áður að þetta er stór málaflokkur í öllum þessum löndum, meira að segja í Danmörku sem manni finnst kannski vera þannig vaxin að hún þurfi ekkert á mikilli byggðastefnu að halda. Engu að síður er rekin byggðastefna þar líka. Ég tel að við getum nýtt okkur þetta samstarf meira en við höfum gert fram að þessu, t.d. í gegnum það rannsóknastarf sem fram fer á vegum stofnunar sem Norðurlönd eiga og hefur komið með ýmsar mikilvægar ábendingar.

Ég vil halda því fram, þó svo að þessi umræða hafi kannski ekki verið mikið á jákvæðu nótunum, að við séum að ná árangri í byggðamálum. Mér finnst ástandið á landsbyggðinni betra en það hefur verið oft áður þó að ég geri mér fulla grein fyrir erfiðleikum á vissum landsvæðum og tel mig hafa alveg þokkalega yfirsýn hvað það varðar. Ég legg mig fram eins og ég get. En það er nú bara þannig að það skiptir miklu máli að heimamenn hafi frumkvæði. Svo eru náttúruauðlindirnar líka misjafnlega settar um landið.

En alltaf er nú verið að reyna að bæta úr og þannig mun ég reyna að starfa áfram.