132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:40]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er háttur stjórnarliða þegar þeir eru komnir í rökþrot að reyna að snúa umræðunni upp í yfirheyrslu á því hvað aðrir flokkar vilji. Þegar þeir bera fram mál og eru spurðir spurninga sem varða það mál, beðnir að útskýra furðulegar þverstæður, þá er bara skautað yfir það og farið í að reyna að krefja aðra flokka svara. Ég skal svara því alveg skýrt.

Ég vil fá grundvallarskilgreiningu í lögum og helst í stjórnarskipunarlögum líka að vatn sé sameiginleg auðlind mannkynsins, að vatn sé nauðsynlegt til viðhalds lífs á jörðinni og að vatn sé ekki hefðbundin verslunarvara. Slík lagaleg grundvallarskilgreining þarf ekki á nokkurn hátt að koma síðan í veg fyrir að menn haldi hefðarhelguðum nýtingarréttindum og afnotum af vatni á sínu landi. Það er bara misskilningur að halda að þetta þurfi að stangast á. Það þarf ekki að gera það. (Forseti hringir.) Þökk sé m.a. framsýni vatnalaganna frá 1923 sem bjóða upp á að þannig sé frá málinu gengið. (Forseti hringir.) En það yrði ekki hægt ef þessi leið verður lögfest.

(Forseti (JBjart): Forseti biður þingmenn um að virða tímamörk.)