132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[20:11]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek orð hæstv. iðnaðarráðherra góð og gild svo langt sem þau ná en ítreka enn og aftur að ég hef á mér allan fyrirvara varðandi það. Ég reikna með því og treysti á það að einmitt þetta verði vandlega skoðað núna í meðförum þingsins, bæði í þingnefnd og iðnaðarnefnd og svo líka við 2. umr. Ég treysti á að kallaðir verði til okkar fremstu lögspekingar og aðrir sérfræðingar til að segja það skýrt og skorinort, kveða upp úr um það hvað sé hér á ferðinni, hvað vaki fyrir þeim sem hafi útbúið þetta frumvarp þannig að vilji löggjafarvaldsins verði algerlega á hreinu í þessu tilefni og við getum þá hugsanlega komið í veg fyrir það að hér verði deilur í framtíðinni um þessi mál.