135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

174. mál
[12:50]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér um málefni sem hún þekkir afar vel, enda var mjög gott samstarf í fyrri ríkisstjórn um þessi mál, en spurt er hver sé stefna ríkisstjórnarinnar hvað varðar hið svokallaða íslenska ákvæði í Kyoto-bókuninni.

Eins og kunnugt er var á fundi aðildarríkja loftslagssamningsins í Kyoto-bókuninni í Marrakesh í Marokkó árið 2001 samþykkt sérstök ákvörðun um takmarkaða heimild til losunar koltvíoxíðs umfram almennar heimildir í litlum hagkerfum frá iðnaðarferlum sem nýttu endurnýjanlega orkugjafa. Þessi ákvörðun hefur stundum verið nefnd íslenska ákvæðið þótt ákvæðið gæti átt við fleiri ríki. Íslenska ákvæðið svokallaða er því ekki beint hluti af Kyoto-bókuninni sem ríki heims náðu samkomulagi um árið 1997 heldur frekar útfærsluatriði sem samið var um síðar.

Nú eru fram undan mikilvægar viðræður þjóða heims um nýjan alþjóðlegan samning um frekari takmarkanir við losun gróðurhúsalofttegunda sem tæki við 1. janúar 2013 þegar Kyoto-bókunin rennur út. Á þessu stigi er mjög margt óvisst um framvindu og gang þeirra viðræðna sem fram undan eru en að því er stefnt að ná niðurstöðu um nýjan samning eigi síðar en haustið 2009 og verður þá haldin ráðstefna í Kaupmannahöfn um málið.

Á næsta aðildarríkjafundi Kyoto-bókunarinnar sem hefst á Balí í lok þessa mánaðar er megináherslan lögð á að ná samstöðu um að skuldbindingar eða takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda í nýjum samningi taki til mun fleiri ríkja en nú eru með skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Í dag er það þannig að heildarlosun þeirra ríkja sem bundin eru af bókuninni nær aðeins um 30 af hundraði af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Í þessu sambandi má nefna að mjög mikilvægt er að ríki eins og Bandaríkin, Ástralía, Kína, Indland og Brasilía auk ýmissa annarra efnahagslega vaxandi þróunarríkja verði með í nýjum samningi.

Ríkisstjórnin lítur þróun loftslagsmála í heiminum alvarlegum augum og mun leggja mikla áherslu á að metnaðarfull markmið náist á næstu árum og áratugum í sameiginlegu átaki þjóða heims gegn þeirri ógn sem mannkyninu kann að stafa af loftslagsbreytingum af mannavöldum verði ekkert að gert. Er ríkisstjórnin reiðubúin til að takast á við þennan vanda eins og best verður gert meðal annarra þjóða. Í þessu efni hafa verið sett skýr langtímamarkmið um að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50–75% fyrir miðja öldina og verður að því unnið með öllum tiltækum ráðum eins og þingheimi er kunnugt.

Mín skoðun er sú að við eigum að freista þess að fá aftur samþykkt íslenskt ákvæði að lokinni næstu samningalotu um takmarkanir við losun gróðurhúsalofttegunda á grundvelli okkar sérstöðu sem viðurkennd var árið 2001 og halda þannig öllum þeim sveigjanleika sem við getum og takmarka ekki möguleika okkar fyrir fram. Síðan er það seinni tíma ákvörðun hvernig slíkt heimildarákvæði yrði hagnýtt.

Ríkisstjórnin hefur þó ekki mótað stefnu um þetta enda ótímabært þar sem forsendur liggja ekki enn allar fyrir. Ríkisstjórnin hefur hins vegar falið starfshópi fjögurra ráðherra undir forustu umhverfisráðherra að móta eftir því sem samningaviðræðum miðar áfram samningsmarkmið Íslands. Þess má einnig geta að nú starfar á vegum umhverfisráðherra sérstök sérfræðinganefnd sem í sitja sérfræðingar, bæði úr atvinnulífi og opinbera geiranum. Nefndinni er ætlað að skila tillögum að mögulegum aðgerðum okkar Íslendinga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2013–2020 en gert er ráð fyrir að það tímabil verði næsta samningstímabil loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Nefndin mun skila tillögum sínum til umhverfisráðherra í mars 2008.