135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stjórnunarkostnaður Ríkisútvarpsins ohf.

141. mál
[14:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur beint til mín fjórum spurningum um stjórnunarkostnað Ríkisútvarpsins. Í fyrsta lagi nema, samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu, heildargreiðslur til útvarpsstjóra 1.530 þús. kr. á mánuði. Þá eru meðtalin laun og reiknuð bifreiðahlunnindi fyrir útvarpsstjórastarfið og þóknun fyrir fréttalestur til jafns við aðra sem gegna því starfi. Laun útvarpsstjóra voru fyrir ári, þá utan hlunninda, 780 þús. kr. á mánuði.

Í öðru lagi var spurt: Hver er þóknun formanns og annarra stjórnarmanna í Ríkisútvarpinu ohf. nú og hver var þóknun fulltrúa í útvarpsráði fyrir ári?

Þóknun formanns og annarra stjórnarmanna hefur ekki verið ákveðin. Þá ákvörðun ber, samkvæmt samþykktum Ríkisútvarpsins ohf., að taka á aðalfundi eða hluthafafundi sem enn hefur ekki verið haldinn, þ.e. ef frá er talinn stofnfundur félagsins.

Þóknun formanns útvarpsráðs fyrir ári var 60.522 kr. á mánuði en þóknun annarra fulltrúa í útvarpsráði var 36.025 kr. á mánuði.

Síðan er spurt í þriðja lagi, frú forseti: Hver er kostnaður við yfirstjórn Ríkisútvarpsins ohf. og hver var hann fyrir ári?

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu urðu breytingar á stjórnunarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins í kjölfar breytinga á rekstrarformi útvarpsins. Voru nokkur stjórnunarsvið sameinuð. Önnur voru lögð niður og millistjórnendum fækkað. Mér skilst að stjórnendum hafi fækkað úr 16 í 10. Sé tekið tillit til þeirrar fækkunar og þeirra breytinga sem orðið hafa á launum stjórnenda, þar með talið útvarpsstjóra, hefur launakostnaður við yfirstjórn Ríkisútvarpsins lækkað um 13 millj. kr. á föstu verðlagi á ársgrundvelli, þ.e. um 10%, úr 137 millj. kr. í 124 millj. kr. Miðað við breytingu á launavísitölu á milli ára er raunlækkun 24 millj. kr., þ.e. um 16% sparnaður.

Og í fjórða lagi er spurt: Hefur launakostnaður almennra starfsmanna breyst hlutfallslega eins og launakostnaður útvarpsstjóra? Því er til að svara: Nei, enda samningar ekki lausir fyrr en hvað úr hverju. Mér skilst að fyrstu samningar séu lausir nú um áramótin og mér skilst einnig að starfsmenn Ríkisútvarpsins muni ekki semja í einu lagi, heldur muni hvert félag fyrir sig, þ.e. félög eins og BSRB, BHM og Rafiðnaðarsambandið, semja við Ríkisútvarpið ohf.