135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:44]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið haft á orði í umræðunni um vaxtahækkun Seðlabankans að hún hafi komið nokkuð á óvart. Ég held að ég hafi sagt það sjálf í stuttri umræðu daginn sem hún kom til eða daginn eftir, og fleiri hafa sagt það sama. Bankinn hefur aftur fyrir sitt leyti sagt að það þurfi engum að koma á óvart að vextir hafi hækkað með þessum hætti því að búið hafi verið að gefa það til kynna.

Ástæðan fyrir því að þetta kom mér nokkuð á óvart er sú að bankinn gaf m.a. út fréttatilkynningu þann 18. september um það að verðbólgan væri yfir viðmiðunarmörkum en hins vegar sagði í þessari fréttatilkynningu frá Seðlabankanum að þetta væri tímabundið frávik í lækkunarferlinu sem hafið væri. Þess vegna taldi maður að sú væri raunin og það kom nokkuð á óvart þegar þessi ákvörðun var tekin.

Það kom líka nokkuð á óvart vegna þess að það má jafnvel segja að núna séu fyrri vaxtahækkanir bankans, ásamt hærra skuldatryggingarálagi á endurfjármögnun bankanna sem núna er að verða að veruleika á erlendum mörkuðum, farnar að bíta. Við sjáum að bankarnir eru að hækka vextina á húsnæðislánunum og hafa verið að því undanfarna daga. Ýmislegt bendir til þess að ekki sé sama þensla fram undan og verið hefur. Hins vegar má segja að bankinn meti það svo að tölfræðin sýni okkur núna að í raun hafi (Forseti hringir.) — fyrirgefðu, mér sýnist ég eiga enn nokkurn tíma, virðulegur forseti.

(Forseti (ÞBack): Hæstv. utanríkisráðherra. Tíminn er kominn 11 sekúndur fram yfir.)

Nú, fyrirgefðu, hæstv. forseti. Þá lýk ég máli mínu.