138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

stöðugleikasáttmálinn.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er auðvitað mjög ánægð með að framsóknarmenn séu að uppgötva hvað persónuafslátturinn skiptir miklu máli vegna þess að í stjórnartíð þeirra skildu þeir alltaf persónuafsláttinn eftir og hækkuðu hann ekki þegar þeir lækkuðu tekjuskattinn með þeim afleiðingum að skattbyrði láglaunafólks varð miklu harðari en hjá hæst launaða fólkinu. Það er gott að það liggur fyrir að framsóknarmenn hafa uppgötvað þetta.

Það er alveg ljóst að ef það gengur eftir sem um var samið í kjarasamningunum 2006 á persónuafslátturinn 2007 að hækka um 2.000 kr. plús verðlag nú um næstkomandi áramót. Það þýðir 9 milljarða kr. útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð, 4,5 milljarður vegna þessara tveggja prósentna og síðan 4,5 milljarður vegna verðlagsbreytinga. Þetta er það sem við erum að glíma við þessa dagana, hvað hægt er að gera í þessu máli og við erum að skoða ýmsar leiðir í því sambandi. Það verður mjög erfitt að ná því fram en við erum þó að skoða einhverjar leiðir til að bæta þetta sérstaklega gagnvart láglaunafólki. Það kemur t.d. til greina að skoða margþrepaskattkerfið þannig að við höfum lægsta þrepið fremur lágt. Það mun þá eitthvað skila sér í auknum persónuafslætti en við erum ekki komin á leiðarenda hvað þetta varðar. Þetta eru mikil útgjöld, 9 milljarðar kr., í það stóra bil sem við þurfum að brúa. En það er vissulega verið að skoða hvernig því markmiði okkar verði náð að hlífa eins og kostur er lægst launaða fólkinu og láta þá heldur bera byrðarnar sem meira hafa í því erfiða verkefni sem við erum í varðandi það að hækka skatta, sem við verðum að gera.