138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

stöðugleikasáttmálinn.

[10:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu kemur það mjög skýrt fram að persónuafslátturinn eigi ekki að hækka milli ára. Spurning mín var einföld og ég óska eftir að forsætisráðherra svari henni líka á einfaldan hátt, já eða nei. Mun láglaunafólk eiga von á þessari hækkun sem umsamin var m.a. í tíð framsóknarmanna árið 2006? Mun láglaunafólk eiga von á þessu? Þetta er gríðarlega mikið atriði og ég óska eftir því að forsætisráðherra svari þessu beint. Við vitum að vandinn er mikill. Ég tel að það sé allt of bratt farið í niðurskurð og þar vegi ríkisstjórnin mjög að því velferðarkerfi sem við framsóknarmenn áttum mikinn þátt í að byggja upp hér á landi. Og ég vil taka fram að heilbrigðiskerfið sem við framsóknarmenn stjórnuðum í 12 ár fær hæstu einkunn hjá OECD og það er talað um að það sé lofsvert og til fyrirmyndar (Forseti hringir.) öðrum þjóðum. (Gripið fram í.)