138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

stjórnskipun Íslands.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég held að það mundi einmitt stuðla að gegnsærri vinnubrögðum ef hér væri fjölskipað stjórnvald. Ég held að rökin fyrir því séu m.a. að það væri betur hægt að koma í veg fyrir misbeitingu valds, mistök í stjórnsýslunni, t.d. við pólitískar ráðningar, og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra ef mál væru með þessum hætti. Auðvitað geta mál verið seinvirkari og allt það en ég held að það sé sannarlega þess virði að reyna þetta.

Þessu erum við að vinna að núna ásamt ýmsum umbótum í stjórnsýslunni sem munu sjá dagsins ljós á næstunni. Við erum m.a. þessa dagana að vinna að næsta áfanga að því er varðar breytingar á ráðuneytum sem hv. þingmaður nefndi og ég vona að fyrr en seinna sjáum við hér í þingsal frumvarp um að koma á einu atvinnuvegaráðuneyti. Ég tel það mjög brýnt og hefði gjarnan viljað stefna (Forseti hringir.) að því að leggja það fram fyrir jólin og einnig að styrkja umhverfisráðuneytið með því að það fari með umhverfis- og auðlindamál.