138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:13]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Til þess að bæði einkaaðilar og sveitarfélög geti leyst fjármögnunarvandann er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin hagi málum sínum þannig að ekki sé búin til aukin óvissa. Það er stór hluti af þeim vanda sem þessir aðilar eiga við að etja að menn vita ekki hvernig t.d. skattheimtu verður háttað, menn vita ekki hvað er fram undan í þeim málum. Menn vita ekki upp á hverju hæstv. umhverfisráðherra tekur næst af því að það eina sem menn vita er hvaða vilji er þar að baki, einbeittur vilji til að reyna að koma í veg fyrir framkvæmdir eins og þær sem hér hafa verið ræddar að því best verður séð. Í það minnsta er ekki hægt að lesa neitt annað út úr þeim orðum og gjörðum sem hæstv. umhverfisráðherra hefur látið falla eða framkvæmt.

Þess vegna skora ég enn og aftur á hæstv. iðnaðarráðherra og aðra þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa ítrekað lýst yfir ríkum vilja og skilningi á því hversu mikilvægt er að þessi verkefni gangi fram og að þau gangi hratt fram þannig að leysa megi atvinnuleysisvandann, ríkissjóður fái tekjur til sín og erlend fjárfesting komi inn til okkar Íslendinga akkúrat á þeim tímapunkti sem við þurfum mest á slíkri fjárfestingu að halda. Að allir þessir aðilar sýni nú ábyrgð og festu og hagi stjórnarathöfnum þannig að dregið sé úr óvissu en hún ekki aukin og mögnuð. Það þýðir að skýr lína verður að koma frá ríkisstjórninni, ekki bara einstökum ráðherrum heldur ríkisstjórninni allri um það hver vilji íslenskra stjórnvalda í málinu er. Það er nefnilega ekki nóg, frú forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ágætar og góðar meiningar, það er ekki nóg, hæstv. forseti, að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hafi góðar meiningar í málinu. Það bara dugar ekki þegar það stendur þannig að ríkisstjórnin sjálf getur ekki komið sér saman um eina ábyrga stefnu. (Forseti hringir.)