138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegar spurningar. Það var öllum ljóst að við vorum að ganga í svæðisbundið efnahagssvæði á þeim tíma, það var öllum ljóst. Menn ræddu á þeim tíma mikið um áhrifin og ég tel að þeim ríkjum sem standa fyrir utan Evrópusambandið hafi tekist nokkuð vel til með að fá tæki til að hafa áhrif á gang mála. Það er mín skoðun að við höfum ekki verið nógu dugleg að nýta okkur það. Ég held almennt og ég sé það sama — ég hef þó nokkuð mikla reynslu af því að sitja í þingmannanefnd EFTA og einnig að vera í forsæti og þá sá ég það, bæði hjá Íslendingum og Norðmönnum — mér fannst embættismennirnir, embættismannakerfið, vera svo upptekið af því að ganga í Evrópusambandið að þeir voru í það minnsta ekki að hjálpa jafnmikið til og maður hefði viljað við að nýta þá kosti sem fylgja Evrópska efnahagssvæðinu hvað varðar áhrif.

Það var hins vegar alveg skýrt að við vorum ekki að fara í tollabandalag. Ég var að vísu ekki orðinn þingmaður fyrir 15 árum en var aktívur í stjórnmálum. Það var ein af þeim röksemdum sem við sem börðumst fyrir því, sem ég gerði á þeim tíma, þó svo það væri ekki í þingsölum, að við gengjum í Evrópska efnahagssvæðið héldum á lofti að við værum ekki að loka okkur inni. Reyndar er það þannig að EFTA hefur á síðustu árum — oft fylgdi það Evrópusambandinu eftir varðandi fríverslunarsamninga við þriðja aðila en þó svo það hafi ekki verið nýtt sem skyldi höfum við á síðustu árum verið með frumkvæði í mörgum málum í EFTA hvað varðar samninga við þriðja aðila. Og það er eitt af því sem án nokkurs vafa er kostur við það að vera í Evrópska efnahagssvæðinu en ekki í ESB að menn hafa þann sveigjanleika. Þannig var málið lagt upp.