139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú þegar þing kemur aftur saman eftir tveggja vikna hlé eftir störf í kjördæmum og að loknu Norðurlandaráðsþingi er mikilvægt að ríkisstjórnin geri betur grein fyrir áformum sínum vegna aðgerða fyrir heimilin en fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu. Það hafa átt sér stað fundir þar sem stjórnarandstaðan hefur verið kölluð að borðinu og á þeim fundum hefur í sjálfu sér ekki annað komið fram en að margar tillögur hafa verið í loftinu og á borði. Við sjálfstæðismenn lögðum fram í upphafi þessarar viku tillögur um aðgerðir fyrir heimilin. Þar er bæði um að ræða beinar aðgerðir sem snúa að skuldavanda heimilanna en líka aðgerðir sem munu skapa ný störf sem er eitt allra stærsta velferðarmálið fyrir heimilin í landinu.

Ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi hingað og geri þinginu grein fyrir áformum sínum, nú þegar mánuður er liðinn frá því að þing kom saman og ákallið í þjóðfélaginu var sem hæst um að gripið yrði til frekari aðgerða til að bregðast við vanda heimilanna í landinu. Allan þann tíma sem liðinn er síðan hafa viðbrögðin einungis verið fálmkennd, afar ómarkviss og óskýr. Misvísandi skilaboð koma frá einstökum ráðherrum um það hvort ríkisstjórnin hyggist fara leið flatrar niðurfærslu eða ekki. Það hefur komið fram frumvarp til breytinga á gjaldþrotalögunum sem fylgdi afskaplega rýr greinargerð en fer núna í meðferð í þinginu.

Maður spyr sig þegar mánuður er liðinn frá því að þingið kom saman og menn lofuðu því að grípa til markvissra aðgerða: Hvers vegna hefur t.d. neysluviðmiðið hjá umboðsmanni skuldara ekki verið hækkað og hindranirnar fyrir því að komast inn í úrræðin ekki (Forseti hringir.) teknar á brott, afnumdar, þannig að fleirum standi úrræðið til boða?