140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

minnisblað um sölu Grímsstaða á Fjöllum.

[11:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ef hæstv. ráðherra gerir ekki greinarmun á milli erlendrar og innlendrar fjárfestingar hlýtur maður að spyrja sig í ljósi þeirra orða sem hér voru látin falla: Hefur viðkomandi ráðherra í hyggju að ráðast inn í kaupin og kaupa landið og gera að ríkiseign? Í raun og veru skilur maður ekki hvert vandamálið er. Viðkomandi aðili hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn til að afsala sér vatnsréttindum. Mjög mikilvægt er að laða að erlenda fjárfestingu, mikilvægt er að styðja við ferðaþjónustuna, auka arðsemi, lengja ferðamannatímann og mikilvægt er að styðja við þetta landsvæði sem kallast „kalt“ í atvinnulegu tilliti. Greining utanaðkomandi aðila gerir ráð fyrir að hér sé hægt að skapa um 1.500 varanleg störf ef áætlanir ganga eftir.

Skoðun þingmanna Samfylkingarinnar liggur algjörlega ljós fyrir og fleiri en einn ráðherra hafa mælt á þann veg í opinberri umræðu. En hins vegar gengur hægt að afgreiða þetta mál og þess vegna hlýtur maður að spyrja sig: Er raunverulegur vilji til að láta þetta mál ganga eftir?