140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:29]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga sem er til að rétta aðeins af fjárlögin frá því í fyrra. Að mestu leyti er ekki annað hægt að sjá í því en það sem kallast má eðlilegt eftir svona skipbrot eins og íslenskt samfélag og efnahagslíf beið árið 2008. Enn þá hefur ýmislegt verið óvissu háð við gerð fjárlaganna og fjáraukalögin taka mið af því og það er ýmislegt sem þarf einfaldlega að leiðrétta, sérstaklega vegna hrunsins. Ég get ekki betur séð, þó ég sé áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og hafi þar af leiðandi ekki mætt á sérstaklega marga fundi þar, miðað við meirihlutaálitið og vinnu í nefndinni en í flestum tilfellum sé um eðlilega hluti að ræða sem eru ekki stórpólitísk deilumál.

Mig langar hins vegar að vekja athygli á því að enn er verið að safna skuldum og ábyrgðum og bæta við þá gríðarlegu skuldahengju sem hangir yfir bæði ríkissjóði, sveitarfélögum og samfélaginu öllu með ríkisábyrgðum, endurlánum og alls konar annars konar ábyrgðum. Ég er með samantekt á skuldastöðu Íslands þar sem skuldir ríkissjóðs, ásamt með skuldum sveitarfélaga, voru við lok síðasta árs 1.560 milljarðar kr. sem er 101% af landsframleiðslu. Af þessu var ríkissjóður með 1.345 milljarða kr. um síðustu áramót.

Svo eru það ríkisábyrgðirnar. Þær ríkisábyrgðir sem taldar eru upp og eru settar á samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir eru 1.184 milljarðar kr. til viðbótar. Ábyrgðir sveitarfélaga eru 324 milljarðar kr. og svokallaðar aðrar ríkisábyrgðir, sem eru ekki fengnar með lögum um ríkisábyrgðir heldur með vísan í neyðarlögin sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum eru enn þá í gildi, eru 1.542 milljarðar. Þar af eru ríkisábyrgðir vegna Arion banka og yfirtöku á eignum SPRON/Dróma 76 milljarðar kr., ríkisábyrgðir til Íslandsbanka vegna yfirtöku á eignum Straums – Burðaráss 52,3 milljarðar kr. og svo blankó ríkisábyrgð á öllum innstæðum í öllum viðskiptabönkum og fjármálastofnunum upp á 1.413 milljarða kr. (PHB: Það er ekki ríkisábyrgð á þeim.) Það er ríkisábyrgð á þeim já. (PHB: Nei.) Jú, samkvæmt yfirlýsingum fjármálaráðherra er ríkisábyrgð á þeim.

Í heildina gera ríkisábyrgðir og ábyrgðir sveitarfélaga hvorki meira né minna en 3.050 milljarða kr. en sú upphæð ein og sér er 198% af vergri landsframleiðslu. Svo getum við bætt skuldum ríkissjóðs ofan á það. Við getum bætt við ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs og ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum sveitarfélaga. Við getum bætt við skuldum Seðlabankans og endum þá í tölu sem samanlagt er tæplega 5.300 milljarðar kr. Þetta veldur mér áhyggjum því að ég held að þetta sé stabbi sem Ísland muni einfaldlega ekki komast út úr öðruvísi en með stórfelldum afskriftum skulda. Meðal annars vegna þess geri ég alvarlegar athugasemdir við það hvernig verið er að afgreiða ábyrgðir ríkisins til Vaðlaheiðarganga hf. Það er einkaframkvæmd að nafninu til og það eitt í sjálfu sér vekur upp spurningar um á hvaða vegferð Vinstri hreyfingin – grænt framboð er þegar verið er að einkavæða vegaframkvæmdir í landinu. Það gengur þvert gegn öllu því sem flokkurinn hefur staðið fyrir frá stofnun. En engu að síður er hann núna að berjast af fullum krafti fyrir einkavæðingu þjóðvegakerfisins.

Önnur ástæða fyrir athugasemdum mínum er sú að þarna endurlánar ríkið peninga til hlutafélags. Ég hef alltaf sagt og segi það einu sinni enn að ég efast ekki um að Vaðlaheiðargöng eru hin besta samgöngubót. Ég keyri þessa leið oft á ári, ég er mikið á Norðausturlandi á sumrin og hef keyrt Víkurskarðið að vetri til og það er einfaldlega mjög erfið leið. En framkvæmdin eins og hún er sett inn hér er fyllilega óeðlileg. Hún er óeðlileg vegna þess að þær forsendur sem fjárlaganefnd hefur tekið tillit til við veitingu heimildar til ráðherra eru í raun glórulausar og standast ekki. Mér finnst að fjárlaganefnd eigi ekki, þegar hún ákveður að veita heimild til lántöku fjármálaráðherra, að styðjast við forsendur eins og þær sem hér eru lagðar fram. Í þeim forsendum sem fyrirtækið hefur lagt fyrir og hafa m.a. borist umhverfis- og samgöngunefnd er ekki ein einasta tala, hvergi nokkurs staðar í öllu planinu, um hverjar tekjur fyrirtækisins af göngunum munu verða. Það er rennt algerlega blint í sjóinn. Þarna eru áætlanir um að umferð á dag yfir árið verði 1.163 bílar og þeir gefa sér það sem forsendu að 90% þeirrar umferðar muni fara í gegnum göngin. En FÍB bendir m.a. á að vetrarumferð um Víkurskarð sé ekki nema 20% af meðalumferðinni. Ekkert er talað um þetta í forsendum Vaðlaheiðarganga hf. og þetta veit fjárlaganefnd og afgreiðir samt málið.

Varðandi fjármögnun segir að Vaðlaheiðargöng hf. muni fá lán á 5,23% vöxtum. Þessi tala var á sínum tíma með 60 punkta álagi sem lífeyrissjóðirnir áttu að fá í sinn vasa fyrir að fjármagna þetta og ætluðu að fjármagna framkvæmdina á þeim forsendum. Þeir voru tilbúnir að setja pening í þetta með 60 punkta álagi. Vegna þróunar á ávöxtunarkröfu bréfa síðan þá er 60 punkta álagið núna komið í 237 punkta. Hvert einasta fjármálafyrirtæki á landinu mundi stökkva á þessa framkvæmd með þá gulrót fyrir framan sig en þau gera það ekki. Hvers vegna skyldi það vera? Þessu gátu fulltrúar MP-banka ekki svarað þegar þeir voru í heimsókn hjá umhverfis- og samgöngunefnd.

Gert er ráð fyrir ákveðinni aukningu umferðar. Það getur svo sem vel verið að það standist en kostnaður vegna innheimtu veggjalda er miklum mun minni en almennt er af jarðgöngum. Það getur svo sem verið að það standist líka vegna þess að ég veit að fyrirhugað er að nota nútímatækni við innheimtu veggjalda en ekki varðmenn í hliðum.

Ég geri athugasemd við annað stórt atriði og það er stofnkostnaðurinn sem er áætlaður rétt tæpir 11 milljarðar kr. Nú hafa aldrei nokkurn tíma verið gerð jarðgöng á Íslandi án þess að kostnaðurinn við þau hafi farið langt fram úr áætlunum. (Gripið fram í: Það er rangt.) Þær áætlanir sem Vegagerðin hefur gert í gegnum árin hafa aldrei staðist og himinn og haf verið á milli en hér tekur fjárlaganefnd þessar tölur góðar og gildar án þess að láta skoða þær betur.

Frú forseti. Mér finnst þetta óboðleg vinnubrögð og ég benti á það í fjárlaganefnd að áður en fjáraukinn var lagður fram fóru menn eftir lögbundnum leiðum og fengu Ríkisábyrgðasjóð að borðinu til að leggja blessun sína yfir framkvæmdina og fjármögnunina. Ríkisábyrgðasjóður óskaði eftir því að fá að meta framkvæmdina sjálfstætt og svarið var nei, hann fékk það ekki. Þá neitaði sjóðurinn að skrifa upp á hana þannig að þessi framkvæmd er ekki gerð með uppáskrift Ríkisábyrgðasjóðs eins og yfirleitt er gert áður en fjárauki eða fjárlög eru lögð fram. Samkvæmt lögum ber Ríkisábyrgðasjóði líka að leggja mat á heimildina þegar hún kemur til framkvæmda, þ.e. þegar búið er að afgreiða fjáraukalögin og þau koma til framkvæmda. Það sama gerist náttúrlega þá, Ríkisábyrgðasjóður mun reyna að leggja eitthvert mat á það en fjármálaráðuneytið mun ekki hlusta á það.

Það liggur fyrir að umhverfis- og samgöngunefnd óskar eftir því að Ríkisendurskoðun fari yfir forsendurnar og búi til sviðsmyndir af því á hvaða forsendum þessi framkvæmd geti hugsanlega gengið upp og þingið hafi þá tölur í höndunum um hvað er verið að ræða. Ég skil ekki af hverju fjárlaganefnd bíður ekki eftir því áliti. Ég legg til að málið verði kallað inn til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. og það verði einfaldlega beðið eftir þeirri umsögn og lögð áhersla á það við ríkisendurskoðanda að þeir flýti umsögn sinni um málið áður en það verður afgreitt endanlega frá þinginu.

Eins og ég sagði áður tel ég að Vaðlaheiðargöng yrðu ágætissamgöngubót en það á ekki að reka ríkissjóð og ríkisframkvæmdir með þeim aðferðum sem hér er gert. Þetta er alls ekki boðlegt. Þetta eru 2007-aðferðir og við eigum að hafa lært af þeim. Ég geri mér grein fyrir því að hv. formaður fjárlaganefndar er undir mikilli pressu með þetta mál og mikið ósamkomulag er innan raða stjórnarflokkanna með afgreiðsluna á því. Ósamkomulagið er ekki síst út af því verklagi sem farið er fram með. Þetta eru leifar af þeirri hefðbundnu kjördæmapólitík sem hefur verið Íslandi og verið Íslendingum svo dýrkeypt í gegnum tíðina, þingmenn í einstaka kjördæmum þurfa að hafa einhver mál til að láta kjósa sig út á og keyra þau svo í gegn. Ég leyfi mér bara að benda á að í þessu tilfelli eru einfaldlega fleiri kjósendur á Akureyri en í Norðfirði. Þess vegna erum við að tala um Vaðlaheiðargöng en ekki Norðfjarðargöng sem eru miklu brýnni framkvæmd öryggisins vegna. Mér finnst þetta vera mjög ljótt mál og leiðinlegt að sjá það í þinginu og að það sé keyrt áfram með þessum hætti. Mér finnst að Alþingi Íslendinga ætti að hafa lært af reynslunni og ætti að vera vaxið upp úr svona vinnubrögðum. Ég vona svo sannarlega að fjárlaganefnd taki það upp hjá sér, þegar málið kemur inn til nefndarinnar að lokinni 2. umr., að bíða eftir áliti Ríkisendurskoðunar á þessum forsendum sem Vaðlaheiðargöng ehf. hafa lagt fram því þær eru algerlega glórulausar. Það er ekki til sóma fyrir Alþingi að afgreiða málið með þessum hætti.