144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal ekki segja hvort við getum orðið sammála, ég og hv. þingmaður, um það hvort krónan er út af fyrir sig sveifluvaldandi eða hvort hún endurspeglar sveiflur sem er að finna í efnahagslífinu annars staðar. Ég hallast frekar að því síðarnefnda.

En aftur að þessum viðmiðum. Mér finnst að mjög gjarnan megi skoða útgjaldaviðmið og fara í gegnum þá umræðu í nefndinni. En ég vil aftur vekja athygli á því að með því að langtímaáætlunin verður að byggjast á þessu grunngildi um stöðugleika þá er þar vísað til þess sjónarmiðs að ávallt sé stefnt að því að árleg útgjöld hins opinbera, að frádregnum vaxtaútgjöldum, vaxi ekki að raunvirði umfram langtímaraunvöxt landsframleiðslunnar. Hver er hann, 2,5% eða 3% kannski? Vonandi yfir eða í kringum 3%. Þá eiga útgjöldin ekki að vaxa umfram það.

En hv. þingmaður nefndi einmitt, í tengslum við skuldahlutföllin, að menn kynnu að þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana til að mæta efnahagssamdrætti og við þær aðstæður mundu menn eflaust þurfa að brjóta útgjaldaviðmiðin. En það er einmitt ventill í frumvarpinu fyrir efnahagsáföll og ég tel að það fyrirkomulag sem er að finna í frumvarpinu sé mjög skynsamlegt. Ráðherra fjármála og efnahagsmála þarf þá að koma í þingið og gera grein fyrir því að hann treysti sér ekki til að leggja fram langtímaáætlun eða fjárlagafrumvarp sem rúmast innan fjárlagareglunnar. Hann þarf að fá sérstaka heimild, með þingsályktunartillögu í þinginu, til að víkja frá fjárlagareglunum. Það þarf að taka um það sérstaka umræðu og það þarf að afgreiðast sérstaklega í þinginu. Þetta veitir ferlinu öllu viðbótaraga.