144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[13:58]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps. Það er mjög ánægjulegt að koma í ræðustól á eftir hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og skynja þann samhljóm sem fram kom í máli hennar og mínum skoðunum á þessu frumvarpi. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að hafa vandaðan undirbúning eins og getið er um hér, og jafnframt að efla stefnumörkun.

Ég er sama sinnis að mér finnst einna besta ákvæðið í frumvarpinu vera að eigi síðar en 1. apríl ár hvert leggi ráðherra fyrir Alþingi tillögur til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Ég tel það til mikilla bóta hér á Alþingi að við ræðum að vori stóru línurnar og getum þá tekist á um hvað við viljum að fram komi á einstökum málefnasviðum, og síðan hafi fjármálaráðuneytið og ráðherra sumarið til þess að setja saman fjárlagafrumvarp út frá því.

Síðan ég tók sæti á Alþingi hefur mér fundist mjög skorta á að ég geti fyrr í ferlinu sagt hvaða meginlínur ég vil sjá í hverjum málaflokki. Þess vegna tek ég undir þau markmið sem hér eru sett fram og er von mín sú að við getum staðið við þau markmið sem við setjum fram í 1. gr.

Mig langar aðeins að víkja líka að 20. gr., en hún er um stefnumótunina fyrir málefnasviðin. Hún segir svo:

„Hver ráðherra setur fram stefnu fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á til eigi skemmri tíma en fimm ára. Í stefnunni skal setja fram markmið, þ.m.t. gæða- og þjónustumarkmið, og skýra hvernig þeim verði náð með tilliti til nýtingar fjármuna, tímasetningar, framkvæmdar, ábyrgðar og fyrirhugaðra lagabreytinga. Við stefnumótun og áætlanagerð ber hverjum ráðherra að virða þau markmið og fjárhæðarmörk sem fram koma í fjármálaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt.“

Þetta er afar mikilvægt, þá er hver ráðherra búinn að setja fram þá sýn sem hann hefur á komandi ár en einnig sína framtíðarsýn. Það er mikilvægt fyrir okkur alþingismenn að koma líka að slíkri stefnumörkun að vori og takast þá á um heildarlínurnar.

Það er margt fleira sem hægt er að tína hér til, en ég hef skynjað það hjá einstaka þingmönnum að þeir óttast að það sé verið að draga úr vægi ákvarðana þeirra til einstakra liða innan fjárlaga, að þetta verði kannski aðeins of embættismannavætt, en ég er ekki á þeirri skoðun. Ef Alþingi tekur sér tak á vorin og fer virkilega vel yfir málin og stefnan er mótuð hlýtur maður treysta þeim sem sjá síðan um framkvæmdina, að hún sé í þeim anda sem Alþingi hefur ákveðið. Ég tek þess vegna undir síðustu málsgreinina í frumvarpinu, lokaorðin, út af þessum áhyggjum sumra þingmanna varðandi frumvarpið. Enda er þetta það eina neikvæða sem ég hef heyrt frá fólki, en almennt er mikil ánægja það.

Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Eftir sem áður mun það því koma til kasta Alþingis, við umfjöllun um fjárlagafrumvarp, að ákvarða hvort og í hve miklum mæli veitt verði framlög úr ríkissjóði til verkefna sem miða að því að markmið frumvarpsins nái fram að ganga.“

Ég vil láta það verða mín lokaorð að ítreka þá ósk og von kannski fremur — að Alþingi hafi hér eftir sem hingað til hafi lokaorðið við gerð fjárlaga.