144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég er ekki að fara fram á það við hv. þingmann að hann fari enn með sömu þulurnar. Ég held að þegar hann er að lesa ríkisreikninginn og sumt af þessu þá sé það svolítið eins og þegar ónefndur aðili les Biblíuna.

Ég get fullyrt, vegna þess að það var tekið saman og skoðað, að agi í ríkisfjármálum fór vaxandi á erfiðleikaárunum 2009, 2010 og 2011. Það merkilega gerðist að þrátt fyrir niðurskurð fóru færri stofnanir út fyrir ramma fjárlaga. Þeim fækkaði verulega milli áranna 2009 og 2010, milli áranna 2010 og 2011 og ég held líka milli 2011 og 2012. Þetta var tekið saman reglulega og var vaktað með sérstökum lista í fjármálaráðuneytinu og það gerðist. Það merkilega var að menn tókust af þvílíkri alvöru á við þessar erfiðu aðstæður að stofnanir sem jafnvel höfðu farið fram úr fjárlögum ár eftir ár eftir ár í tíð fyrri ríkisstjórna, eins og Landspítalinn, fóru inn fyrir fjárlög. Þrátt fyrir verulega skerta fjárveitingu var hann rekinn réttum megin við núllið þrjú ár í röð, sem var nýtt í sögu hans og mætti nefna mörg fleiri dæmi.

Við innleiddum nýjar fjármálareglur sveitarfélaganna. Við settum strangari reglur um yfirfærslu fjárheimilda og settum þök á það sem færa mætti milli ára. Við hertum reglur með afskriftir á fjárheimildum sem ekki höfðu verið nýttar og felldum þær í auknum mæli niður. Sá sem hér stendur lagði drög að því frumvarpi sem við erum að ræða, þannig að mér finnst það koma úr dálítið harðri átt að nota þetta tækifæri sérstaklega, í umræðum um þessi mál, til að koma með venjubundin ónot í garð fyrri ríkisstjórnar. Mér finnst það bara ósköp ódýrt hjá hv. þingmanni. En kannski er þetta bara svona, þetta er bara eitthvað sem hann ræður ekki við, þetta er bara í forritinu hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að jafnt á degi sem nóttu, hvað sem um er rætt, þá skal reyna að sparka eitthvað í vinstri stjórnina.